Lögmaður Arngríms Jóhannssonar flugstjóra gerði í gær kröfu um að Claire og Tyler, börn flugmannsins Grants Wagstaff, leggi hvort um sig fram 2,8 milljónir króna til tryggingar á málskostnaði sem Arngrímur þurfi að bera vegna málshöfðunar systkinanna á hendur honum.

Fram kom í máli lögmanns Arngríms að málin myndu verða mjög umfangsmikil og flókin og þar af leiðandi hafa í för með sér mikinn kostnað. Upphæð málskostnaðar tryggingarinnar á að endurspegla það. Systkinin gera kröfu um bætur vegna andláts föðurs þeirra sem fórst í Barkárdal með flugvél sem Arngrímur flaug í ágúst 2015.

Fulltrúi sem mætti fyrir hönd lögmanns systkinanna í Héraðsdóm Reykjavíkur í gær benti hins vegar á að þriðja systkinið, Sarah Wagstaff, ræki þegar sambærilegt mál gegn Arngrími og að sú vinna myndi nýtast í öllum málunum.Mótmælti fulltrúinn því ekki að orðið yrði við kröfunni um málskostnaðartryggingu en kvað hana alltof háa. Eðlilegra væri að tryggingin yrði sem næmi kostnaði við fimm til tíu vinnustundir eða 130 til 260 þúsund krónur. Einboðið væri að beðið yrði með mál þeirra þar til fyrir lægi niðurstaða í málunum sem þegar eru rekin gegn Arngrími og Sjóvá. Auk systkinanna þriggja rekur ekkja Grants, Roslyn Wagstaff, einnig slíkt bótamál. Það mál er mun lengra á veg komið og hefur greinargerðum þegar verið skilað til dómsins.

Dómarinn spurði í gær hvort ekki hefði verið gerð krafa um málskostnaðartryggingu í máli Söruh og kvað lögmaður Arngríms það hafa láðst. Fram kom í Fréttablaðinu í október að Arngrímur krafðist 7,5 milljóna króna málskostnaðartryggingar frá ekkjunni. Úrskurðurinn fæst ekki afhentur í héraðsdómi en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Roslyn Wagstaff hafa verið gert að leggja fram um eina milljón króna í tryggingu.

Eftir stutt þinghald í málinu í gær boðaði dómarinn að úrskurðað yrði um kröfurnar í lok dags. Var það ekki gert í heyranda hljóði og tókst Fréttablaðinu ekki að afla upplýsinga um niðurstöðuna.