Börn sem fæðast á yfir­ráða­svæðum hryðju­verka­sam­taka, og eiga danska for­eldra munu ekki fá sjálf­krafa ríkis­borgara­rétt í Dan­mörku, sam­kvæmt um­deildum lögum sem hafa verið sam­þykkt á danska þinginu.
Ráð­herra út­lendinga­mála í dönsku ríkis­stjórninni vonast til þess að lögin komi í veg fyrir að danskir ríkis­borgarar taki þátt í vopnuðum á­tökum hryðju­verka­sam­taka.

Vilja ekki að börn séu skilin eftir á á­taka­svæðum

Í frétt Berlingske um málið segir að börn sem annars yrðu ríkis­fangs­laus myndu þó enn fá danskan ríkis­borgara­rétt. Sú undan­tekning var sett inn eftir að frum­varpið hafði verið gagn­rýnt harð­lega, meðal annars fyrir að gera börn ríkis­fangs­laus.

„Við viljum ekki hætta á að börn verði skilin eftir ríkisfangslaus á átakasvæðum,“ sagði Mattias Tesfaye, ráðherra útlendingamála í dönsku ríkisstjórninni, í umræðum málið á danska þinginu.

Liður í að­gerðum gegn er­lendum víga­mönnum

Undan­tekningin hefur þó ekki þaggað niður í allri gagn­rýni á lögin en það er enn sagt brjóta gegn réttindum barna. Til að mynda hefur vara­for­maður Mann­réttinda­stofnunarinnar í Dan­mörku sagt að frum­varpið sé „mjög ó­venju­legt þar sem það refsar ný­fæddum börnum fyrir görðir for­eldra sinna.“ Það eina sem börnin hafi gert af sér sé að fæðast á röngum stað.

Sam­kvæmt nú­gildandi lögum fá börn sem eiga danska móður eða danskan föður og eru fædd eftir 2014, sjálf­krafa danskan ríkis­borgara­rétt. Fyrir börn sem eru fædd fyrir 2014 gilda aðrar reglur, og er meðal annars litið til þess hvort að þau séu fædd í Dan­mörku eða er­lendis þegar á­kveðið er hvort að þau komi til með að fá ríkis­borgara­rétt.

Nýju lögin munu taka gildi þann fyrsta febrúar næst­komandi, en þau eru liður í átta að­gerða á­ætlun gegn „er­lendum víga­mönnum.“