Frítt verður í sundlaugar Reykjavíkurborgar fyrir börn á grunnskólaaldri frá og með 1. Ágúst 2022. Borgarráð samþykkti í dag svohljóðandi tillögu menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Einnig var samþykkt tillaga um miðnæturopnun á fimmtudagskvöldum í Laugardalslaug, frá og með 4. ágúst næstkomandi, til áramóta.

Boðið verður upp á endurgreiðslur á kortum sem foreldrar og forráðamenn hafa keypt fyrir börn sín. Hvort sem um 10 miða kort eða 6 til 12 mánaða kort sé að ræða.

Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki Reykjavíkurborgar á þessu ári vegna þessa verði allt að tólf milljónir króna vegna niðurfellingu gjalda og 7,4 milljónir vegna endurgreiðslna á kortum.

Kostnaðarauki á árinu 2023 muni svo verða í kringum 30 milljónir króna.

Miðnæturopnun á fimmtudagskvöldum er svo tilraunaverkefni sem mun vara fram að áramótum og verði mat lagt á reynsluna af því við undirbúning fjárhagsáætlunar 2023.

Í samstarfssáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar kemur fram að aðgengi borgarbúa á öllum aldri að sundlaugum borgarinnar sé brýnt lýðheilsumál.