Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í desemb er varðar forsjádeilu íslensks föður og erlendrar móður. Föðurnum er gert að afhenda móðurinni börnin, sem eru með tvöfalt ríkisfang, innan fimmtán daga frá uppsögu úrskurðarins, sem var síðastliðinn fimmtudag.
Foreldrarnir gengu í hjónaband árið 2014 og eignuðust saman börnin tvö. Fram kemur að konan hafi ekki kunnað við sig hér á landi og þau síðan flutt erlendis. Sambúð hjónanna litaðist af miklum ágreiningi samkvæmt úrskurði héraðsdóms. Þau hafa til að mynda kært hvort annað til lögreglu vegna ofbeldis af hálfu hins aðilans.
Faðirinn hafi flutt aftur hingað til lands, þau skilið og börnin orðið eftir erlendis hjá móðurinni og eiga þau lögheimili þar. Þrátt fyrir það hafa þau sameiginlegt forræði yfir börnunum.
Börnin komu til landsins þann 5. ágúst í fyrra og áttu að snúa aftur mánuði síðar. Í kjölfarið barst barnavernd tilkynning frá lögmanni föðurins um meint ofbeldi hennar og var ákveðið að börnin skyldu vistuð hjá föðurnum lengur gegn vilja móðurinnar.
Móðirin leitaði til héraðsdóms og krafðist þess að börnin yrðu tekin úr umráðum föðurins og afhent til sín. Og líkt og áður segir úrskurðaði dómstóllinn að börnin yrðu afhent henni, og var sá úrskurður síðan staðfestur í Landsrétti.