Erla Björnsdóttir sálfræðingur segir ótvírætt að símar hafi mjög mikil áhrif á svefn barna og unglinga. Endalausar tilkynningar kunni að raska ró þeirra, mörg börn leggist til svefns með kveikt á símum og noti símann sem vekjaraklukku. Það síðasta sem mörg börn og ungmenni geri áður en þau leggist með höfuðið á koddann sé að tékka á símanum. Skjábirtan og áreitið örvi heilann þegar mestu varði að börnin slaki á.

„Það er mjög mikilvægt að foreldrar reyni að takmarka skjánotkun á kvöldin, best væri að sleppa henni alveg síðasta klukkutímann. Við verðum að athuga að börn hafa oft aðgengi að öllum vinum sínum í gegnum símann inni í svefnherberginu,“ segir Erla.

Fréttablaðið hefur síðustu daga fjallað um svefnmál barna og ungmenna. Ein leið sem sögð er fær til að auka hvíld barna og bæta heilsu og námsárangur er að seinka fyrstu tímum í skólum á morgnana.

Annar vandi, samkvæmt rannsóknum, er skjánotkun barna. Erla mælir með að foreldrar setji börnum sínum reglur strax við fyrstu farsímaeign þeirra. Erfiðara sé að setja strangari reglur síðar. Þá kunni foreldrar í sumum tilvikum að sofna í þeirri trú að börnin séu sofnuð þegar þau séu í raun í símanum.

„Við foreldrar vanmetum áhrif skjánotkunar á svefn. Ég held að það sé alveg ljóst.“