Tvö til­vik komu upp í gær­kvöldi þar sem börn á raf­magns­hlaupa­hjólum lentu í á­rekstrum við bíla. Fyrra til­fellið átti sér stað í mið­bænum rétt eftir klukkan fimm í gær­kvöldi þegar á­rekstur varð milli bíls og tveggja fimm­tán ára stelpna á raf­magns­hlaupa­hjóli. Þær voru fluttar til bráða­deildar með á­verka á ökkla en ekki segir meira um líðan þeirra í dag­bók lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu.

Síðar um kvöldið, rétt fyrir klukkan átta, lenti sex ára barn á raf­magns­hlaupa­hjóli á hlið bíls sem var að bakka í Garða­bænum. Öku­maður þekkti drenginn, hlúði að honum og fór með hann til for­eldra hans. Drengurinn fékk að­hlynningu frá sjúkra­liðum og for­eldrum en ekki var talin á­stæða til að flytja hann á bráða­deild.

Kona var hand­tekin vistuð í fanga­geymslu við rann­sókn á líkams­á­rás á veitinga­stað í mið­bænum. Hún er sögð hafa brotið glas á höfði manns. Hún fór fyrst til að­hlynningar á bráða­deild vegna sára á fingrum en á­rásar­þoli var með minni­háttar á­verka á höfði.

Festi hendina milli tjakks og bíls

Til­kynnt var um þjófnað í verslun þegar maður tók tvær sam­lokur og borðaði þær fyrir framan starfs­fólk. Sam­kvæmt dag­bókinni sagðist hann ætla að koma aftur næsta dag og greiða fyrir þær.

Maður var fluttur á bráða­deild til að­hlynningar eftir að hann festi hendi sína milli tjakks og bíls þegar hann var að skipta um dekk. Sjúkra­liðum að­stoðaði við að losa hendina og var hann svo fluttur með sjúkra­bíl.

Höfð voru af­skipti af þremur bílum þar sem öku­menn óku án öku­réttinda og/eða voru grunaðir um akstur undir á­hrifum fíkni­efna. Lög­regla tók tali af sex­tán ára strák sem sat undir stýri kyrr­stæðs bíls. Hann var án öku­réttinda en hafði verið að keyra fram og til baka í götunni sinni. Lög­regla ræddi við móður stráksins og sendi til­kynningu til Barna­verndar.