Embætti landlæknis gaf í dag út lífheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum í sjötta skipti. Er þar um að ræða safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Vonast er til að þeir geti veitt heilbrigðistþjónustu og sveitarfélögum yfirsýn og auðveldað þeim að bæta heilsu og líðan íbúanna.

„Flestir telja jú heilsu og hamingju það eftirsóknarverðasta í lífinu,“ sagði Alma Möller landlæknir á kynningu á lýðheilsuvísunum á miðvikudaginn. „Það hefur orðið æ ljósara að góður svefn er undirstaða heilsu og vellíðunar og flest þurfum við sjö til átta klukkustunda svefn. Þá er mikilvægt að hreyfa sig reglulega, vanda mataræði, forðast áfengi og tóbak, huga að kynheilbrigði og að vera ábyrgur neytandi.“

Meðal þess sem kemur fram í lýðheilsuvísunum er að árið 2020 sváfu 26,6 prósent fullorðinna of lítið og 43,6 prósent af börnum. Í báðum tilvikum var um að ræða litla aukningu frá árinu áður. Athygli er vakin á því að börn á Austurlandi virðast sofa betur en á öðrum landshlutum og er bent á að Austurland sé nær því að vera með rétt stillta klukku miðað við staðsetningu Íslands á jörðinni. Jafnframt sé skólabyrjun þar síðar en annars staðar í að minnsta kosti einum stórum skóla. „Við hvetjum skólastjóra á öllu landinu til að skoða það, sérstaklega fyrir unglingastigið, þar sem ungmennin geta kannski sjálf komist út í skóla, þar sem þetta virðist geta haft jákvæð áhrif,“ sagði Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis, við kynninguna.

Gagnrýna skattaafslátt gosdrykkja

Í lýðheilsuvísunum kom einnig fram að aðeins lítill hluti Íslendinga neyti ráðlagra dagskammta af ávöxtum. Þá hafi orðið aukning í neyslu gosdrykkja fullorðinna þar sem um fimmtungur framhaldsskólanema segjast drekka þá fjórum sinnum eða oftar í viku.

„Hér er mikilvægt að minna á að gosdrykkir eru í raun með skattaafslátt á Íslandi,“ benti Dóra á. „Þeir fá afslátt á venjulegum virðisaukaskatti niður í ellefu prósent, sem er þveröfugt við allar ráðleggingar og ekki í takt við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Til að draga úr gosdrykkjaneyslu og auka heilbrigði þyrftu frekar að vera aukalegar álögur en afsláttur af álögum á þeim. Þetta er eitthvað sem við höfum reynt að koma á framfæri við stjórnvöld og munum halda áfram að gera.“