Eitrunarmiðstöð Landspítala hafa borist „of mörg símtöl undanfarið“ vegna barna sem komist hafa í nikótínpúða.

Er fólk varað við því að geyma allar nikótínvörur þar sem börn hvorki ná til né sjá og þá helst í læstum hirslum.

„Nikótín er MJÖG eitrað efni, sérstaklega litlum börnum, og lítið magn getur valdið mjög alvarlegri eitrun,“ segir í tilkynningu frá Eitrunarmiðstöðinni.

Er fólk hvatt til þess að hringja í Neyðarlínuna 112 eða Eitrunarmiðstöðina í síma 543 2222 ef einhver verður fyrir eitrun.

Seldu 338 þúsund færri dósir af neftóbaki

Nikótínpúðar hafa notið vaxandi vinsælda hér á landi og eru gjarnan notaðir í staðinn fyrir neftóbak.

Við­skipta­blaðið greindi frá því að sala á íslensku neftóbaki hafi dregist saman um 43% á fyrstu tíu mánuðum ársins samanborið við 2019.

Miðað við að hver dolla af nef­tóbaki sé 50 grömm nemur fækkunin 338 þúsund dósum af nef­tóbaki á fyrstu tíu mánuðum ársins.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, sagði í samtali við Fréttablaðið í sumar að ætla megi að auknar vinsældir nikótínpúða hafi haft veruleg áhrif á sölu neftóbaks.

Þá hafi minni sala í Fríhöfninni það sem af er þessu ári sömuleiðis sett strik í reikninginn.