Áætlun bresku ríkisstjórnarinnar um hvernig nýjum samningi við Evrópusambandið yrði hagað á næstu dögum var hafnað af breska þinginu í kvöld. Boris Johnson lagði áætlunina fyrir þingið og gerði ráð fyrir að samningurinn yrði afgreiddur fyrir útgöngu Bretlands úr sambandinu, eða á næstu þremur dögum.
Johnson hefur gert allt hvað hann getur til að tryggja að Bretar dragi sig úr Evrópusambandinu fyrir 31. október. Hann hefur ítrekað lýst því yfir að útgangan muni eiga sér stað hvort sem samningar nást eða ekki. Útgöngusamningar náðust þó við ESB í síðustu viku en eru þeir samningar nú uppnámi þar sem atkvæði voru greidd gegn tímaáætluninni.
Vonbrigði og óþarfa tafir
„Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að neðri málstofan hafi enn og aftur kosið að tefja frekar þá áætlun sem hefði tryggt útgöngu Bretlands þann 31. október,“ sagði Johnson eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar lá uppi.
Hann sagði þó að atkvæðagreiðslan hefði ekki breytt áformum hans um að yfirgefa ESB í enda mánaðarins. „Á einn eða annan hátt munum við ganga úr Evrópusambandinu í með samningnum sem neðri málstofan hefur samþykkt.“
Jeremy Corbyn, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sagði Johnson sjálfan bera ábyrgð á eigin óförum en sagðist þó vera tilbúin að ræða málin ef Boris gæti útbúið skynsamari tímaáætlun fyrir útgönguna.