Breski forsætisráðherrann Boris Johnson lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að kröfur um afsögn hans verði sífellt háværari eftir að í ljós kom að hann hafði sótt teiti í Downingstræti 10 er samkomutakmarkanir vegna Covid-19 voru með harðasta móti. Var samkvæmið brot á þeim reglum.
Nú segir hann að enginn hefði varað sig við því að teitið værið brot á reglum sem hans eigin stjórn setti. „Enginn varaði mig við að þetta mætti ekki. Ég hefði munað það“, hefur BBC eftir forsætisráðherranum.
Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi hans og náinn bandamaður sem nú hefur snúið baki við honum, segist sannarlega hafa varað Johnson við. Ráðgjafinn segir Johnson kominn að endalokum forsætisráðherratíðar sinnar og skýringarnar ekki trúanlegar.
Von er á skýrslu um uppákomuna frá háttsettum embættismanni og segir hann að bíða eigi niðurstöðu hennar áður en lengra er haldið.
Í fyrra, rétt fyrir jarðaför Filippusar drottningarmanns, var Johnson í svipuðum sporum vegna gleðskapar í Downingstræti 10 og fór til Elísabetar drottningar og baðst afsökunar á framferði starfsmanna sinna.