Kappræður milli þeirra sem hafa gefið kost á sér sem næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins, og þar af leiðandi næsti forsætisráðherra Bretlands, fóru fram í dag. Boris Johnson sem hefur unnið afgerandi sigur í síðustu umferðum kosninganna tók ekki þátt í kappræðunum.

Hinir fimm sem bjóða sig fram mættu allir og gagnrýndu fjarveru Johnson í kappræðunum sem voru sýndar beint á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4. Það eru þeir Jeremy Hunt, utanríkisráðherra, Dominic Raab, fyrrverandi Brexitmálaráðherra, Sajid Javid, innanríkisráðherra, Rory Stewart, alþjóðaþróunarmálaráðherra og Michael Gove, umhverfisráðherra.

Bar þar hæst umræður um möguleika á nýjum samningaviðræðum við Evrópusambandið vegna útgöngu Breta úr sambandinu. Þá voru kostir og gallar þess að ganga úr sambandinu án samnings einnig ræddir.

Skipuleggjendur kappræðnanna skildu eftir tóma pontu fyrir Johnson og sökuðu mótherjar hans hann um skort á áreiðanleika. Johnson bar það fyrir sig að kappræður á borð við þessar væri ekki vel til þess fallnar að skapa almennilegar umræður um málefnin.