Boris Johnson, þingmaður Íhaldsflokksins, hefur staðfest að hann muni bjóða sig fram til formanns þegar Theresa May stígur til hliðar. BBC greinir frá þessu í dag.

Boris var spurður um það á ráðstefnu í Manchester hvort hann hefði áhuga á að bjóða sig fram og svaraði því játandi. „Að sjálfsögðu ætla ég að kýla á það. Ég held að það sé ekkert leyndarmál,“ sagði Boris.

Theresa May hefur gefið út að hún muni segja af sér sem formaður flokksins og forsætisráðherra um leið og frumvarp hennar um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hlýtur stuðning þingsins. Þingið hefur nú þrisvar sinnum hafnað frumvarpi hennar þess efnis en hún mun aftur leggja slíkt frumvarp fram í byrjun næsta mánaðar.

Mikil ólga hefur verið innan Íhaldsflokksins í kringum útgönguna og tapaði flokkurinn rúmum þrettán hundruð sætum um allt land í sveitarstjórnarkosningum fyrr í mánuðinum.