Boris Johnson hefur sigrað formannskosningar breska Íhaldsflokksins og verður því næsti forsætisráðherra Bretlands. Johnson sigraði í dag með miklum mun gegn mótframbjóðenda sínum Jeremy Hunt. Johnson hlaut 92.153 atkvæði gegn 46.656 atkvæðum Hunts.

Kosningin fór fram meðal um 160.000 meðlima flokksins og var kosningaþátttakan mikil, 87,4%. Johnson er ekki ókunnur leiðtogahlutverkinu en hann hefur gegnt embætti utanríkisráðherra og sat sem borgarstjóri London árin 2008-2016.

Jeremy Hunt hlaut einungis um þriðjung atkvæða.

Theresa May mun láta af störfum á morgun, miðvikudag, eftir þrjú ár í embættinu, og tekur Johnson þá formlega við af henni. Hann hefur lagt áherslu á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og hefur gefið út að landið verði að ganga úr sambandinu fyrir 31. október, sama hvort samið verði sérstaklega um útgönguna eða ekki.

Niðurstöðurnar ættu ekki að koma mörgum á óvart en Johnson hefur leitt allar skoðanakannanir síðan kosningabaráttan hófst. Ýmsir háttsettir meðlimir flokksins hafa þó lýst yfir mikilli andstöðu við Johnson og stefnu hans. Margir hafa þannig tilkynnt um að þeir muni ekki starfa undir forystu hans og þá sagði menntamálaráðherrann Anne Milton af sér embætti um hálftíma áður en niðurstöðurnar voru tilkynntar.