Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands er með með­vitund og hefur ekki þurft á öndunar­vél að halda sam­kvæmt frétta­flutningi Sky News. Öndunar­vél er hins vegar til taks hjá sjúkra­rúmi hans ef á­stand hans versnar. John­son greindist með CO­VID-19 fyrir 10 dögum síðan. Upp­haf­lega var sagt að hann væri með væg ein­kenni en hann hefur verið með við­varandi hita og hósta frá því hann greindist. Samkvæmt breskum fjölmiðlum fékk Johnson súrefni vegna öndunarerfiðleika eftir að ástand hans versnaði í dag.

Sam­kvæmt frétta­vef BBC þurfa um tveir þriðju þeirra sem eru lagðir inn á gjör­gæslu í Bret­landi á öndunar­vél að halda innan við 24 tíma.

Á sunnu­dags­kvöldið var á­kveðið að færa John­son á spítala til þess að fara í frekari prófanir vegna við­varandi ein­kenna. Hann var færður með sjúkra­bíl á St. Thomas spítalann um átta leytið, á sama tíma og Elísa­bet Eng­lands­drottning á­varpaði bresku þjóðina. Í há­deginu í dag fengu breskir miðlir að vita að John­son væri enn að sinna störfum sínum sem for­sætis­ráð­herra úr sjúkra­rúmi sínu á St. Thomas spítalanum. Líðan hans versnaði hins vegar seinni­part dags og var hann færður á gjör­gæslu.

Skömmu áður tísti for­sætis­ráð­herrann að hann væri vel stemmdur og í góðum sam­skiptum við sitt starfs­fólk meðan þau væru að berjast við veiruna og halda Bretum öruggum.

Dominic Raab, utan­ríkis­ráð­herra Bretlands, gengur nú ó­form­lega í starf for­sætis­ráð­herra Bretlands. Hann er sagður hafa talað við John­son í síma. Ríkis­stjórn Bret­lands fékk að vita að Johnson væri að fara á gjör­gæslu gegnum fjar­funda­búnað skömmu áður en það var tilkynnt opinberlega.

Raab hélt stuttan blaða­manna­fund á níunda tímanum í kvöld þar sem hann tók fram að ríkis­stjórnin mun halda á­fram að sinna sínum störfum. „Allar á­ætlanir um hvernig við ætlum að sigra kórónu­veiruna halda ó­breyttar á­fram,“ sagði Raab. Hann bætti við að það væri sterkur lið­sandi í ríkis­stjórninni.

Breskir miðlar segja að John­son verður á gjör­gæslu í viku hið minnsta. Því mun Raab vera starfandi for­sætis­ráð­herra yfir páska.