Breska forsætisráðuneytið bað Elísabetu drottningu afsökunar í dag eftir að upplýst var um að starfsfólk þess hafi haldið teiti langt fram á nótt í ráðherrabústaðnum á Downingstræti kvöldið sem jarðarför Filippusar prins, eiginmanns drottningarinnar, fór fram. Filippus lést þann 9. apríl í fyrra og var borinn til grafar þann 17. apríl.

„Það er afar óheppilegt að þetta hafi gerst á tíma þjóðarsorgar og Downingstræti hefur beðið höllina afsökunar fyrir þetta,“ sagði talsmaður forsætisráðherra um atvikið.

Boris Johnson forsætisráðherra hefur átt í vök að verjast að undanförnu vegna uppljóstrana um ítrekað veisluhald hans og annarra stjórnarliða á síðastliðnum tveimur árum. Þessar veislur hafa farið fram um leið og stjórnin hefur komið á ströngum samkomutakmörkunum og öðrum sóttvarnaaðgerðum og hafa því vakið talsverða reiði.

Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, og Ed Davey, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, hvöttu Johnson báðir til að segja af sér í kjölfar uppljóstrunarinnar um veislustandið fyrir jarðarförina. Sumir hátt settir meðlimir Íhaldsflokks Johnsons hafa einnig hvatt hann til að segja af sér, þar á meðal Douglas Ross, leiðtogi Íhaldsflokksins í Skotlandi. Ráðherrar í ríkisstjórn Johnsons standa þó enn þétt við bakið á honum og ekkert fararsnið virðist vera á forsætisráðherranum.