Boris Johnson hefur sagt af sér embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Theresu May. Uppsögnin kemur í kjölfar sáttar sem ríkisstjórnin náði um hvernig staðið skuli að Brexit. David Davis, Brexit-ráðherra, sagði af sér í gær eftir hitafund í Downingstræti 10 og er Johnson því annar ráðherrann í ríkisstjórn May til að segja af sér á innan við sólarhring. Ríkisstjórnin er talin ganga plankann og þá er May sögð rúin trausti innan flokks síns, Íhaldsflokksins.

Sjá einnig: Brexit-ráð­herra í ríkis­stjórn May segir af sér

Fréttir af uppsögn Johnson bárust hálftíma áður en May átti að ávarpa neðri deild breska þingsins (e. House of Commons). Þar stendur til að hún kynni samkomulagið sem ríkisstjórnin féllst á fyrir helgi um Brexit. Davis og Johnson eru ósáttir hvernig staðið hefur verið að þeim málum en þeim þykir lending Breta úr ESB vera of „mjúk“.

„Vandræðaleg og erfið staða“ fyrir May

Davis sagði af sér í gærkvöldi en hann var skipaður ráðherra yfir Brexit-málum í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu úr sambandinu árið 2016. Á hann að hafa rokið út í fússi af hitafundi með May í Downingstræti 10. May er rúin trausti innan Íhaldsflokksins og segja sérfræðingar að ríkisstjórn hennar hangi á bláþræði. Johnson var nokkurs konar andlit þeirra sem studdu útgöngu úr sambandinu árið 2016. Davis var einnig meðal þeirra en Dominic Raab var kynntur sem arftaki hans sem Brexit-ráðherra í morgun.

Laura Kuenssberg, stjórnmálasérfræðingur BBC, segir að með afsögn Johnson sé staðan orðin „vandræðaleg og erfið“ fyrir May og ríkisstjórn hennar. Segir hún enn fremur að ákvörðun Johnson gæti leitt af sér valdabaráttu á milli hans og May um leiðtogasætið innan Íhaldsflokksins.

Nigel Farage, fyrrverandi formaður UKIP og einn af arkítektum kosningabaráttu Brexit-sinna, hrósar Johnson fyrir ákvörðun sína. „Losið ykkur nú við hina hræðilegu Theresu May og komið Brexit aftur af stað,“ skrifar Farage.

Ringulreið í ríkisstjórn May

May myndaði nýja ríkisstjórn eftir að hafa boðað óvænt til kosninga í fyrra. Þar hlaut Íhaldsflokkurinn flest atkvæði en þingsætum flokksins fækkaði um þrettán frá kosningunum 2015. Á sama tíma jók Verkamannaflokkurinn við sig og fékk 30 fleiri sæti á milli kosninga. Deilt hefur verið um hvernig Bretar skuli standa að útgöngu úr ESB en samkomulag ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var fyrir helgi, fellur illa í kramið hjá Davis, Johnson og fleiri Brexit-sinnum. Tom Watson, varaformaður Verkamannaflokksins, segir gífurlega ringulreið ríkja innan ríkisstjórnar May.

„Þetta er algjör ringulreið og Theresa May nýtur einskis valds lengur,“ sagði Ian Lavery í Verkamannaflokknum. Brexit-sinnar eru margir hverjir ekki sáttir með samkomulagið og telja útgönguna úr sambandinu vera helst til of „mjúka“. Bretar munu samkvæmt því áfram halda fríverslunarsamkomulagi við ESB-ríkin. Hins vegar mun dómsvald Evrópudómstólsins falla úr gildi líkt og rætt hafði verið um. Einnig verður frjálst flæði fólks, ein af grunnhugmyndum fjórfrelsisins, afnumið í Bretlandi og þá munu Bretar sjá um eigin tollalagningu gagnvart öðrum ríkjum.

Deilt um hart eða mjúkt Brexit

Iðulega er talað um „harða“ eða „mjúka“ lendingu Breta úr ESB og er það einna helst sem tekist er á um. Með hörðu Brexit myndu Bretar fullkomlega gefa upp aðkomu sína að innri mörkuðum Evrópu. Þannig myndu þeir ekki þurfa að uppfylla skilyrði fjórfrelsisins, einnar af grunnhugmyndum innri markaðar ESB og EES, um frjálst flæði fólks, vöru, þjónustu og fjármagns. Á sama tíma myndu Bretar hafa fulla stjórn á eigin landamærum.

Með mjúku Brexit er átt við að þó svo Bretar séu vissulega utan sambandsins muni þeir áfram njóta fríðinda á borð við fríverslunarsamninga og aðgang að innri mörkuðum ESB. Þeir sem aðhyllast þessari leið eru á því að Bretar verði áfram innan EES-svæðisins, þrátt fyrir að vera utan sambandsins, líkt og Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein. Með þessari leið myndu Bretar að öllum líkindum þurfa að skuldbinda sig fjórfrelsinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.