Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði að óþarfi væri fyrir Michel Barnier, aðalsamningamann Evrópusambandsins, að mæta til fundar á mánudag myndi sambandið ekki gefa eftir kröfur varðandi framtíðarviðskiptasamning.

Í ávarpi til þjóðarinnar sagði hann að allt eins líklegt væri að Bretland yrði samningslaust um áramót, eða með lauslegt fríverslunarsamkomulag líkt og Ástralir hafa.

Stjórn Johnsons hefur þrýst fast á að viðræðurnar gangi hratt fyrir sig því lítill tími er til stefnu áður en aðlögunartíma útgöngunnar lýkur í lok árs. Evrópusambandið hefur hins vegar verið opnara fyrir því að framlengja aðlögunartímann og taka meiri tíma í viðræðurnar, sérstaklega í ljósi þess að baráttan við heimsfaraldurinn hefur tekið mikinn tíma og athygli frá þeim.

Angela Merkel Þýskalandskanslari hvatti Johnson til að halda viðræðunum áfram. Báðir aðilar yrðu að gefa eftir í sínum ítrustu kröfum.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti var harðari í horn að taka og sagði að Bretar yrðu að taka skilmálum sambandsins eða ganga út samningslausir. Myndi það koma Frökkum vel, sem hafa unnið að því að laða fyrirtæki frá Lundúnum til Parísar og gera borgina að fjármálamiðstöð álfunnar.

Stjórnarandstæðingar í Bretlandi hafa brugðist hart við ummælum Johnsons. Frjálslyndir demókratar segja þau glæfraleg í meira lagi, í ljósi þess hvað sé í húfi fyrir Bretland.

„Við ættum ekki að vera að kljást við þetta stóra mál núna þegar fókusinn þarf að vera á COVID,“ sagði Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins.

Gagnrýndi Sturgeon Johnson fyrir að taka ekki boði sambandsins um framlengingu aðlögunartímabilsins. Hennar eigin flokkur hefði sett undirbúning að nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands á ís meðan faraldurinn gengur yfir. Framganga Johnsons sýndi þó enn og aftur hvers vegna Skotlandi væri betur borgið á eigin fótum.