Boris Johnson hélt sína fyrstu ræðu sem forsætisráðherra Bretlands í neðri málstofu breska þingsins í Westminster í morgun en þar útlistaði hann fyrir þingmönnum sín helstu áhersluatriði, strauma og stefnur. Þar sagði Johnson að „ný gullöld“ væri hafin undir hans stjórn.
Hann var ekki beinlínis spar á stóru orðin heldur sagði hann markmiðið væri að ganga frá útgöngu Breta úr Evrópusambandinu eigi síðar en 31. október í þeim tilgangi að „sameina og endurlífga konungsveldið á ný“. Bretland hygðist hann, í samvinnu við ríkisstjórn sína, gera að „besta landi á jörðu“.
Johnson boðar betri samning en þann sem Theresa May komst að samkomulagi um við ESB og felldur var þrívegis í þinginu. Meðal þess sem hann vill hrinda í framkvæmd er að fella út ákvæði um hina svokölluðu írsku baktryggingu sem forða myndi eftirliti á landamærum Norður-Írlands og Írlands, tímabundið, eftir Brexit.
Þá hét hann því að samið yrði um hagstæða fríverslunarsamninga og að mikilvægt yrði að stjórnvöld byggju sig undir Brexit án samnings. Þá hét hann því að evrópskir ríkisborgara með lögheimili í Bretlandi þyrftu engar áhyggjur að hafa að Brexit loknu.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði að Johnson liti ef til vill og stórt á sig í þessum efnum. Samningslaust Brexit yrði reiðarslag fyrir bresku þjóðina. Þá gagnrýndi hann Johnson harðlega fyrir stefnu hans í skattamálum og sagði hana hampa hinum efnuðu.