Tvær konur, Hallveig Guðmundsdóttir og Áslaug Birna Bergsveinsdóttir, hafa stigið fram og lýst því erfiða hlutskipti að vera konur í karllægu slökkviliði. Þær starfa báðar hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og segja að valdaójafnvægið sé gríðarlegt. Erfitt sé að eiga rödd í svo miklum minnihluta. Jafnvel sé þeim borið á brýn að storka hjónaböndum karlanna í liðinu með því einu að vera konur.

Hallveig og Áslaug Birna rituðu færslu á Facebook þar sem Hallveig segir: „Mig hefði aldrei grunað hversu erfitt það væri að stíga inn á þennan karllæga vinnustað, þrátt fyrir að hafa eignast fjögur börn og gengið í gegnum alls konar erfitt og lærdómsríkt í lífinu.

Meðal athugasemda sem hún segist hafa heyrt innan liðsins eru glósur um að þær konurnar séu að eyðileggja vinnustaðinn, þær séu of pumpaðar, ófá tár hafi trillað niður kinnar. Oft hafi spurningin kviknað hvort amstrið sé þess virði að standa í því en þetta sé draumadjobb þeirra beggja. Þær neiti að gefast upp.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segist kannast við málið en vísar á mannauðsstjóra slökkviliðsins, Guðnýju Elísabetu Ingadóttur. Guðný segist ekki draga upplifun Hallveigar og Áslaugar í efa. Margt þurfi betur að fara innan liðsins í þessum málum. Markvisst sé unnið að úrbótum.

„Engum á að líða illa í vinnunni, öllum á að líða vel. Þannig viljum við hafa það,“ segir Guðný.

Aðeins tólf konur starfa hjá slökkviliðinu af um 180 manns sem ganga vaktir. Fyrsta konan var ráðin árið 2008. Guðný segir að nú standi yfir fræðsla fyrir allt starfsfólk og einkum stjórnendur. Sérstaklega verði spjótunum beint að einelti og kynferðislegri áreitni.

„Við erum á þeirri vegferð að bæta vinnustaðarmenningu, en eins og gefur að skilja hefur þetta verið vinnustaður nánast einungis karla. Að koma inn í þessa menningu getur verið flókið. Þetta mun taka tíma,“ segir Guðný.

Innt viðbragða um að konurnar í liðinu séu sagðar storka hjónaböndum karlanna – væntanlega með því að þykja aðeins of sexí – segir mannauðsstjórinn að viðhorf karla sem tali þannig lýsi sorglegri fáfræði.

„Auðvitað viljum við ekki hafa svona inni á vinnustaðnum.“

Aftur á móti segir Guðný að starfsfélagar Hallveigar og Áslaugar hafi sest niður með þeim og rætt málin eftir að þær tjáðu sig. Það sé jákvætt.

Guðný hvetur konur til að sækja um störf hjá liðinu.