„Það er alveg skýr afstaða af okkar hálfu að greiðslur fyrir þjónustu sem hefur verið veitt skulu vera inntar af hendi af hálfu þessara fyrirtækja – algjörlega skilyrðislaust,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Borgun tilkynnti á föstudag þeim fyrirtækjum sem skipta við kortafyrirtækið um skilmálabreytingar sem falla í afar grýtta jörð. Í bréfi til viðskiptavina segir Borgun að tekin verði upp svokölluð veltutrygging frá 1. október.

„Með veltutryggingu er átt við að Borgun heldur eftir 10 prósentum heildarfjárhæðar allra færslna á uppgjörum. Veltutryggingu er haldið eftir í sex mánuði,“ segir í bréfi Borgunar. Þá fá allir gert upp aðeins mánaðarlega en ekki örar. „Ofangreindar breytingar eru gerðar til varnar aukinni endurkröfuáhættu."

Jóhannes segir útspil Borgunar nú í rauninni það nýjasta í langri röð vandamála sem tengist skilmálum kortafyrirtækja. Samtök ferðaþjónustunnar hafi látið gera lögfræðilegar úttektir. „Það er alveg skýrt af okkar hálfu og við höfum komið því á mjög skilmerkilegan máta til þessara þriggja stóru kortaþjónusta,“ segir Jóhannes og á þar við Valitor og Korta auk Borgunar.

Jóhannes segir kortafyrirtækin eðlilega vera að reyna að tryggja sig gagnvart því sem þau upplifa sem aukna áhættu í þessum viðskiptum. Það komi hins vegar ekki til greina að kortafyrirtæki haldi eftir tíu prósentum af greiðslum jafnvel þótt þjónustan hafi verið veitt.

„Kortafyrirtækin eiga að skila á réttum tíma öllum greiðslum fyrir þjónustu sem hefur verið veitt. Við teljum að þau hafi ekki í neinum tilfellum rétt til þess að halda slíku eftir,“ segir Jóhannes, sem kveðst hafa skilning á því að kortaþjónustufyrirtækin meti áhættu.

„Hins vegar er það algjörlega klárt að þegar að þjónusta hefur verið veitt að þá er engin áhætta lengur til staðar fyrir kortafyrirtækin. Og það er algjörlega óásættanlegt af okkar hálfu og jaðrar við lögbrot, myndi ég telja, að fyrirtækin haldi eftir greiðslum vegna þjónustu sem hefur verið veitt.“