Byggingarfulltrúanum í Reykjavík ber að beita sér vegna bakhúss sem reist var í óleyfi á Leifsgötu fyrir 75 árum, segir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og tekur þar með undir sjónarmið íbúa í næsta húsi.

Sótt var um leyfi til þess að reisa bakhús við Leifsgötu 4 á árinu 1946 og Reykjavíkurborg hafnaði því að veita leyfið, en húsið var byggt engu að síður.

Allar götur síðan hefur umsóknum um ýmis leyfi tengd bakhúsinu verið hafnað. Ráðist hefur verið í ýmsar viðbótarframkvæmdir í gegnum tíðina, sem borgin hefur óskað eftir að verði fjarlægðar án þess að við því hafi verið orðið.

Íslandsbanki eignaðist Leifsgötu 4b á nauðungar­uppboði vorið 2013. „Hinn 21. ágúst 2017 sendi starfsmaður bankans tölvupóst til starfsmanns umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og spurðist þar fyrir um hvað væri til ráða með framhaldið,“ segir í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar. Þar hafi verið vísað til þess að bankinn hefði lánað út á eignina í þeirri trú að hún væri „nothæf“.

Í svari borgarstarfsmannsins hafi Íslandsbanka verið bent á að varla væri þar „gott ástand, til dæmis með tilliti til brunavarna“ enda væri skúrinn mjög nálægt fjölbýlishúsinu þar framan við. „Sennilega væri best að þið létuð rífa þetta til að losna við öll gjöld,“ var ráðið frá borginni til bankans, sem fylgdi ekki þeirri ráðleggingu heldur seldi bakhúsið til eiganda í júlí 2019. Í samningnum var tekið fram að eignin væri „lóðarréttindalaus“ og að uppi væri ósætti við íbúa á Leifsgötu 4 til 10.

Eftir að Íslandsbanki seldi húsið óskuðu íbúar í húsfélaginu Leifsgötu 4-10 eftir því við byggingarfulltrúa að hann léti fjarlægja hið óleyfilega bakhús. Töldu þeir að hafnar væru óleyfilegar framkvæmdir og óheimil atvinnustarfsemi í eigninni.

Eftir þrjár vettvangsferðir fulltrúa byggingarfulltrúa á staðinn og bréf til hins nýja eiganda ákvað byggingarfulltrúi í júní í sumar að aðhafast ekki meira að svo stöddu. Húsfélagið Leifsgata 4 til 10 kærði þá ákvörðun.

Íbúar töldu þeir að óleyfilegar framkvæmdir og óheimil atvinnustarfsemi ætti sér stað í eigninni.
Fréttablaðið/Ernir

Úrskurðarnefndin tók undir með íbúunum. Byggingarfulltrúa hefði ekki verið stætt á að styðja ákvörðun sína um að aðhafast ekki frekar með þeim rökum að óskum hans hefði ekki verið sinnt, enda var þá tilgangi skoðunarinnar ekki náð.

Þar að auki lægju fyrir gögn, meðal annars myndupptaka sem gáfu til kynna að bakhúsið væri nýtt í atvinnuskyni. Full ástæða hefði verið fyrir byggingarfulltrúa til að rannsaka málið frekar.

Þá bendir úrskurðarnefndin á að þrátt fyrir að eigandi mannvirkis beri ábyrgð á eigin brunavörnum taki eftirlit byggingar­fulltrúa til mannvirkja sem reist eru án tilskilins leyfis, enda geri lög beinlínis ráð fyrir að þvingunarúrræðum sé beitt vegna ólöglegra mannvirkja.

„Verður að telja það ótækt að ákvörðun um að aðhafast ekki frekar vegna skorts á brunavörnum, sem lúta skýrlega að almannahagsmunum og í þessu tilviki tengjast öryggi og heilsu félagsmanna kæranda [húsfélagsins Leifsgötu 4 til 10] og annarra íbúa hverfisins, sé rökstudd með vísan til þess að ábyrgðin liggi hjá eiganda mannvirkis,“ undirstrikar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.