„Mér sýnist tillagan bara hafa verið samþykkt sem var svona umdeild,“ segir Teitur Atlason, fyrrverandi varaborgarfulltrúi Samfylkingar, um lóðamarkarmálið í Vesturbæ sem snýr að hinu svokallaða Sundlaugartúni, vestan við Vesturbæjarlaug. Málið varð til þess að hann sagði af sér í byrjun mars í fyrra.

Greint var frá því í gær að búið væri að semja við eigendur húsa við Einimel varðandi kaup á hluta borgarlands af svokölluðu Sundlaugartúni, vestan við Vesturbæjarlaugina. Málið hefur valdið miklum titringi og Reykjavíkurborg sökuð um að gefa eftir.

Var aldrei ágreiningsmál

Verða lóðir Einimels 18, 24 og 26 færðar út um rúma 3 metra og heimilt að stækka lóð Einimels 26 lítillega til norðurs. Starfsmenn Reykjavíkurborgar munu rífa niður girðingar sem reistar voru fyrir mörgum áratugum síðan.

„Þetta varpar svolítið ljósi á veikleikana í fjölmiðla- og samfélagsumræðu. Hún nær aldrei dýpra en bara á yfirborðið,“ segir Teitur og vísar meðal annars til tilkynningar Reykjavíkurborgar um samþykktina á nýja deiliskipulaginu.

Þar kemur fram að almenningsrýmið aukist og borgarlandið verði aftur aðgengilegt eins og gert var ráð fyrir í eldra deiliskipulagi.

„Staðreyndin er að Reykvíkingar hafa alltaf getað notað þetta svæði en bara út af frekjuskap og yfirgangi þessara íbúa sem bjuggu þarna á sínum tíma, ekki núverandi, þá er málið búið að vera í hnút. Við höfðum alltaf aðgang að túninu. Það var aldrei ágreiningsmál,“ segir Teitur.

Orðalagið á vef Reykjavíkurborgar sem Teitur vísar meðal annars í.
Skjáskot af vef Reykjavíkurborgar

Stjórnsýslan hafi farið í kerfi

Deilan á sér langa sögu en um árabil hafa lóðir fyrir aftan einbýlishús á Einimel 22, 24 og 26 verið teygðar í leyfisleysi út á túnið fyrir aftan sundlaugina og girtar af.

Teitur segir að fyrir nokkrum áratugum hafi háttsettur embættismaður búið í götunni, í húsi númer 26, sem hafi sölsað undir sig lang mest af túninu.

„Það nennti enginn í stríð við hann. Svo gerist það þegar núverandi borgarstjórn vill fara leysa hnútinn og hnútinn hefði verið hægt að leysa með því að rífa niður grindverkið og fara eftir reglunum sem giltu. En þá komu mótmæli, meira að segja hótunarbréf, eða lögfræðibréf, frá íbúum við Einimel,“ segir Teitur og heldur áfram: „Þeir segja þetta búið að vera svona svo lengi að þetta gæti verið hefðarréttur. Við þetta bréf fer stjórnsýslan í kerfi og þeir byrja að semja.“

Plötuð að samningaborðinu

Að sögn Teits hefði þessi skýring aldrei getað gengið upp. „Lög um hefðarrétt geta bara gilt ef það er vafi á eignarrétti. En í þessu tilfelli var aldrei vafi á eignarrétti.“

Borgin hafi litið svo á að hún yrði að semja í málinu. „Borgin var eiginlega plötuð að samningaborðinu. Það hefði verið hægt að leysa þetta öðruvísi. Borgin var plötuð að samningaborðinu og þetta er niðurstaðan,“ segir Teitur.

Teitur segir borgina venjulega grjótharða í samningamálum vegna allskyns mála en þarna hafi eitthvað klikkað. „Ef þú átt peninga þá getur þú allt,“ segir hann og bætir við að þetta mál sé dæmi um það að borgin hygli auðmönnum. „Ég er búinn að búa í þessari borg í fimmtíu ár. Ég sé þetta augunum mínum.“

Samkvæmt Pawel Bartoszek borgarfulltrúa á borgarráð eftir að taka samningana fyrir, en kaupverðið sé metið út frá hefðbundnu fermetraverði garðs í þessu hverfi.