Á næstu vikum verða nagladekk tekin undan 27 bílum sem velferðarsvið hefur í þjónustu sinni. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um bíla á nagladekkjum hjá borginni.

Fréttablaðið sagði frá því 29. október að vegfarendur hefðu veitt því athygli að bíll merktur Reykjavíkurborg væri á nagladekkjum, þrátt fyrir yfirlýsingar borgarinnar um að nagladekk væru óþörf innan borgarlandsins og skaðleg umhverfinu að auki. Fékkst upplýst frá borginni þá að tveir til þrír bílar á hennar vegum væru á undanþágu sem eftirlitsbílar í sólarhringsþjónustu.

Haft var eftir Hjalta J. Guðmundssyni, skrifstofustjóra hjá borginni, að engar líkur væru á því að fleiri bílar á vegum borgarinnar yrðu settir á nagladekk í vetur.

Til að forvitnast nánar um málið sendi Fréttablaðið borginni fyrirspurn varðandi nagladekkin, fyrir 24 dögum. Svar barst í þessari viku. Kemur á daginn að alls eru 41 bíll á vegum borgarinnar á nagladekkjum en ekki aðeins tveir eða þrír eins og fyrst var sagt. Fyrir utan fimm bíla sem tengdir eru skíðasvæðunum.

Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, teymisstjóri samskiptasviðs borgarinnar.
Fréttablaðið/Stefán/Aðsend

„Velferðarsvið hefur tekið bíla á rekstrarleigu undir heimaþjónustu og aðra þjónustu, vítt og breitt um borgarlandið og reyndust 27 af þeim vera á nagladekkjum, en allir eiga þeir pantaða tíma á næstu dögum og vikum þar sem skipt verður í aðra tegund af vetrardekkjum,“ segir í svari Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, teymisstjóra samskiptasviðs borgarinnar. Segir Eva samninga við rekstrarleigur vera „í skoðun“.

Enn fremur segir Eva að í vetur verði tíu sorpbílar á nagladekkjum. „Þá eru fjórir bílar á nagladekkjum hjá umhverfis- og skipulagssviði, sem notaðir eru sem undanfarar til að kanna færi og aðstæður, oft á nóttu og snemma morguns,“ segir í svari hennar.

„Sorphirðubílar eru á ferðinni í húsagötum áður en vetrarþjónustu er lokið og sorphirðufólk er að störfum í kringum aðra bíla í hálku,“ svarar Eva síðan, aðspurð hvers vegna sorpbílarnir og undanfarabílarnir svokölluðu séu á nagladekkjum.

„Í vetur er ráðgert að kanna sérstök dekk fyrir stóra bíla eins og sorphirðubílana. Skipt verður um á einum til að byrja með og kannað hvernig það reynist,“ bætir hún við.

Varðandi nagladekkin á rekstrarleigubílum velferðarsviðs, segir Eva að oft þegar bílar eru leigðir séu þeir afhentir á nöglum.

„Umsjónarmenn þurfa að taka það sérstaklega fram að þeir eigi að vera á góðum vetrardekkjum en ekki nöglum. Ef það ferst fyrir þarf að senda bílana aftur í leigurnar eða semja um umskipti.“