„Lítið eða ekkert samráð hefur verið við íbúa svæðisins vegna þessara fyrirhuguðu framkvæmda sem minnir óþægilega á aðdraganda að þéttingu byggðar við Bústaðaveg, sem borgin dró síðar til baka vegna mótmæla íbúa,“ segir meðal annars í ályktun stjórnar Íbúasamtaka Bústaða- og Fossvogshverfis vegna fyrirhugaðrar þrengingar Háaleitisbrautar, á gatnamótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegs og lokun á hægri beygjum.

Stjórn íbúasamtaka Bústaða- og Fossvogshverfis samþykkti að beina þeim vinsamlegu, en jafnframt eindregnu, tilmælum til borgarinnar að hætt verði þegar við fyrirhugaðar framkvæmdir. Segir að slík þrenging minnki ekki slysahættu heldur auki hana og flytji á önnur svæði. Bent er á að til að minnka slysahættu gangandi vegfarenda á þessum gatnamótum megi framkvæma slíkt með öðrum miklu öruggari og árangursríkari aðgerðum, til dæmis göngubrú eða undirgöngum.