„Fulltrúi Flokks fólksins vill byrja á að gagnrýna þann langa tíma sem það tekur að fá svör við fyrirspurnum,“ segir í bókun Flokks fólksins á fundi borgarráðs á fimmtudag.

Nokkrum fyrirspurnum frá minnihlutaflokkunum var svarað á fundi borgarráðs og eiga þær nokkrar sameiginlegt að vera í eldri kantinum. Braggamálið kom meira að segja við sögu, en fyrirspurn um málið var svarað af endurskoðunarnefnd, en fyrirspurnin var lögð fram 16. apríl 2020.

Þá barst svar um utanlandsferðir á vegum borgarinnar sem farnar voru vegna annarra ástæðna en fundahalds, en fyrirspurn um það var lögð fram á miðju ári 2020.

Einnig kom svar við fyrirspurn um greiðslur til verkfræðiskrifstofa síðustu 12 ár. Sú fyrirspurn var lögð fram 23. júlí í fyrra.