Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri og umsjónarmaður Dýraþjónustu Reykjavíkur, segir mál kattarins Nóru mjög leiðinlegt og að Dýraþjónustan sé að gera sitt besta til að finna köttinn.

Greint var frá máli kattarins Nóru í gær en Reykjavíkurborg fjarlægði kött úr miðbæ Reykjavíkur um helgina vegna ítrekaðra kvartana.

Nóra var gómuð í gildru og ferjuð í Laugardalinn þar sem Dýraþjónustan er með þjónustu í Húsdýragarðinum en þegar þangað var komið slapp Nóra og er nú týnd.

Undantekning að gildrur séu notaðar

Þorkell segir tilfelli líkt og þetta ekki vera algeng en þegar ítrekað hafi verið kvartað á sama stað undan ketti sem séu ómerktir þá geti verið brugðið á það ráð að fanga þá í gildru.

„Það er mjög lítið gert og við erum að mestu leyti hætt því,“ segir Þorkell og bætir við að kettir með ólar séu almennt ekki fangaðir aðeins þeir sem séu ólarlausir og gætu þar af leiðandi verið villikettir. Núna sé verið að fara yfir alla verkferla sem varði notkun á gildrum en að Dýraþjónustan hafði haft þá stefnu að draga mjög úr notkun þeirra.

„Í þessu tilfelli þá höfðu verið ítrekaðar kvartanir í langan tíma þannig það var ákveðið að setja gildru til að fá á hreint uppruna kattarins sem var að valda þessu ónæði.

Það má nota gildrur í vissum kringumstæðum samkvæmt kattasamþykktinni. Þetta er eitthvað sem þú grípur til í fulla hnefana og stefna okkar er að draga úr þessu eins og hægt er,“ segir Þorkell.

Bagalegt að kötturinn hafi sloppið

Að sögn Þorkels þarf að lesa örmerkingar af ólarlausum köttum til að finna hver eigandi hans sé. „Það þýðir að það þarf að taka köttinn úr búrinu sem getur verið mál. Í þessu tilfelli vildi svo illa til að kötturinn sá undankomuleið og var snöggur að nýta sér hana og það er auðvitað mjög leiðinlegt.“

Þorkell segir mjög bagalegt að kötturinn hafi sloppið og það áður en hægt hafi verið að fletta upp eiganda hans.

„Þetta er mjög leiðinlegt og við gerum okkar besta til að finna köttinn. Eftir á að hyggja hefði mátt standa betur að þessu við ætlum ekkert að draga úr því en við ætlum að reyna okkar besta til að finna köttinn,“ segir Þorkell og bætir við að það hafi borist spurnir af kettinum síðasta hálfa sólarhringinn, við Húsdýragarðinn.

Mikilvægt að heimiliskettir beri ólar

Aðspurður hver næstu skref hefðu verið ef Nóra hefði ekki sloppið frá Dýraþjónustunni áður en náðist að lesa örmerkinguna segir Þorkell að hringt hefði verið í eigendur kattarins sem hefðu síðan getað nálgast köttinn á ný.

Þorkell segir mikilvægt að fólk setji ólar á heimilisketti svo það fari ekkert á milli mála að þeir eigi heimili, „þá er engin ástæða til að fanga þá.“