Reykjavíkurborg er fylgjandi stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu en telur að það yrði mikill fengur að fá fulltrúa borgarinnar að borðinu við stjórnun hans. Í umsögn borgarinnar til Alþingis segir að borgin hafi nokkrar áhyggjur af því að þeir sem lifa eða starfa í meiri fjarlægð frá mörkum þjóðgarðsins hafi ekki áhrif á stjórnun hans og ákvarðanir sem þar eru teknar. Ekki sé gert ráð fyrir að íbúar eða yfirvöld sveitarfélaga sem séu staðsett utan marka þjóðgarðsins fái aðkomu að stjórn eða umdæmisráðum.

„Það er þrátt fyrir að mörg mikilvæg samtök sem nota hálendið mikið til ýmissa nota eru með meginstarfsemi sína annars staðar til dæmis á höfuðborgarsvæðinu. Til dæmis eru stærstu ferðaþjónustufyrirtækin sem mörg stunda ferðaþjónustu á hálendinu staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Sama á við um mörg útivistar- og náttúruverndarsamtök,“ segir í umsögn borgarinnar.

Í bókun meirihlutans á borgarráðsfundi er bent á að langflest ferðaþjónustufyrirtæki séu staðsett í Reykjavík eins og útivistar- og náttúruverndarsamtök og önnur mikilvæg samtök sem noti hálendið. Vigdís Hauksdóttir var þó ekki hrifin og bókaði: „Að stofna til Hálendisþjóðgarðs á öllu hálendinu er eignaupptaka og útópía sem aldrei verður að veruleika. Já, borgarfulltrúi Miðflokksins tilheyrir litlum grenjandi minnihluta landsmanna.“