Borgarráð samþykkti í gær að veita sérstakt aukaframlag til Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss vegna takmarkana á starfsemi hússins vegna áhrifa COVID-19 í fyrra.

Alls 128 milljónir króna verða veittar í styrk fyrir árið 2020 og 135 milljónir fyrir 2021. Utan þess eru heildarframlög Reykjavíkur til Hörpu ohf., árin 2020 og 2021 rúmlega einn og hálfur milljarður króna. Reykjavíkurborg er eigandi að 46 prósentum á móti ríkinu.

Aukafjárframlögum frá Reykjavíkurborg nema því 263 milljónir á árunum 2020 og 2021. Samtals leggur tæpan 1,8 milljarð í félagið á tveimur árum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bar upp tillöguna en Vigdís Hauksdóttir, áheyrnarfulltrúi Miðflokksins lét m.a. bóka ummæli þar sem hún minnti á að tillaga sín um að fella niður fasteignagjöld borgarinnar á Hörpu vegna Covid faraldursins fyrir árin 2020 og 2021 hafi áður verið felld. Innheimt fasteignagjöld á árunum 2020 og 2021 nemi 650 milljónum sem renni til borgarinnar, nær hefði verið að spara húsinu þann kostnað. „Vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri er að gera. Öllum má vera ljóst að Harpa ohf. er ógjaldfær. Óskað er eftir að framkvæmdastjóri Hörpu komi á fund borgarráðs og geri grein fyrir rekstri félagsins,“ segir í bókun Vigdísar.

Í greinargerð Dags segir að stjórnendur Hörpu hafi gripið hefur verið til víðtækra hagræðingaraðgerða og náð settu marki um að lækka rekstrarkostnað. „ Eftir sem áður er rekstrarkostnaður vegna hússins verulegur og vega þar fasteignagjöldin þungt,“ segir þar og að því miður hafi virðist rekstrarþróunin síðustu mánaða ársins vegna þriðju bylgju COVID-19 faraldursins vera tekjulega lakari en útkomuspá sagði til um í fyrra.