„Til­finning mín er að nú­verandi meiri­hluti sé að ganga of langt og of nærri um­ferðinni og grónum hverfum,“ sagði Ey­þór Arnalds, borgar­full­trúi og odd­viti Sjálf­stæðis­manna í Reykja­vík, áður en í­búa­fundur hófst í gær­kvöldi um til­lögur að upp­byggingu við Bú­staða­veg.

Hart er deilt um til­lögurnar meðal íbúa í Bú­staða­hverfi. Þær gera ráð fyrir tveggja til þriggja hæða byggingum ofan og neðan Bú­staða­vegar með í­búðum á efstu hæðum, at­vinnu­starf­semi á mið­hæðinni og bíla­kjallara þar undir.

Segir hverfið verða kaldara

Margar fleiri til­lögur um þéttingu byggðar í grónum borgar­hlutum eru nú til um­ræðu og kveðst Ey­þór Arnalds að­spurður telja að skipu­lags­málin verði í brenni­depli í borgar­stjórnar­kosningunum í vor.

Af hálfu borgar­yfir­valda hefur komið fram að breytingarnar við Bú­staða­veg muni bera með sér aukna þjónustu og verslun og um­hverfið allt verða þar líf­legra og hlý­legra. „Það eru engar for­sendur fyrir því að það að byggja blokkir við Bú­staða­veginn geri Bú­staða­hverfið blóm­legra. Þvert á móti þá má ætla að um­ferðin verði þyngri og hverfið kaldara eins og þetta lítur út,“ segir Ey­þór.

Fjöl­mennt var á fundinum.
Fréttablaðið/Valli

Ólafur Elías­son, íbúi í Foss­vogi og einn stjórnar­manna í endur­reistum Í­búa­sam­tökum Bú­staða- og Foss­vogs­hverfis, sagði fyrir í­búa­fundinn í gær að borgin væri í á­róðurs­stríði gagn­vart í­búum hverfisins.

„Mörg okkar sem búum í hverfinu upp­lifum eins og borgin sé í ein­hverju PR-stríði við okkur að reyna að troða þessum byggingum upp við Bú­staða­veginn. Það er gríðar­leg reiði í mjög mörgum sem geta afar illa sætt sig við þetta,“ sagði Ólafur, sem kveður í­búana finna hug­myndunum flest til for­áttu, enda séu þær al­gjör­lega van­hugsaðar að þeirra mati. „Fólki finnst til­lögurnar vera ljótar, þrengja mjög að hverfinu og breyta á­sýnd þess.“

Margir í­búar í Foss­vogi eru ó­sáttir við hug­myndir borgarinnar.
Fréttablaðið/Valli

Þá sagði Ólafur í­búana mjög ó­sátta við hvernig staðið sé að málinu og sakar borgar­yfir­völd um út­úr­snúninga.

„Það er talað um eitt­hvert í­búa­lýð­ræði en 99 prósent okkar heyra fyrst af þessu þegar þetta er kynnt til­búið. Þegar síðan allt logar á í­búa­síðunni okkar vegna þess hversu mörg okkar eru ó­sátt, kemur full­trúi borgarinnar fram og segir að það sé bara gamalt fólk yfir sex­tugu sem sé á móti þessum nýjungum – sem er ekki á nokkurn einasta hátt rétt, fyrir utan hversu ó­svífið það er,“ sagði Ólafur.

Að sögn Ólafs hugðust þeir sem eru and­vígir á­formunum leggja það til á í­búa­fundinum í gær­kvöldi að frestur til at­huga­semda yrði enn lengdur. „Ég held að það væri lang eðli­legast að fá þessu frestað og að síðan verði bindandi í­búa­kosning um þessar til­lögur,“ sagði Ólafur.

Fyrir fundinn kvaðst Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri ekki eiga von á öðru en góðum fundi.
Fréttablaðið/Valli

Ey­þór kveðst telja öruggt að í vor verði kosið um hvort haldið verði á­fram að þétta byggð með því þrengja að um­ferða­r­æðum og grónum hverfum, eða hvort það eigi að opna Reykja­vík og fara í upp­byggingu á nýjum svæðum, eins og á Keldum.

„Þarna er ekki verið að hlusta nægi­lega á vilja fólks,“ segir Ey­þór.

Fyrir fundinn kvaðst Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri ekki eiga von á öðru en góðum fundi.

„Í­búa­sam­tökin hafa verið endur­reist vegna á­huga á þessu hverfa­skipu­lagi, sem er mjög já­kvætt. Við höfum mjög góða reynslu af sam­ráði við íbúa á undir­búnings­stigi vinnunnar við hverfa­skipu­lag, sem segja má að byggi á óskum sem fram komu á fyrstu stigum,“ segir hann.

Dagur undir­strikar að það sem nú hafi verið kynnt séu vinnu­til­lögur.

„Í kjöl­far sam­ráðs þá verður form­leg til­laga mótuð og hún verður einnig kynnt og aug­lýst þegar þar að kemur. Fundar­boð­endur hafa metið það svo að það séu einkum breytingar við Bú­staða­veg sem skiptar skoðanir eru um, en það verður fróð­legt að heyra sjónar­miðin,“ segir Dagur.

Ey­þór ræðir við Lilju Al­freðs­dóttur ráð­herra og íbúa í Foss­vogi.
Fréttablaðið/Valli