Mann­réttinda- og lýð­ræðis­ráð Reykja­víkur­borgar hefur sam­þykkt að hætta nú þegar notkun blárra ljósa á salernum í hús­næði borgarinnar og leita sam­komu­lags við leigj­endur hús­næðis í eigu borgarinnar um hið sama. Í frétt á vef borgarinnar segir að með á­kvörðuninni sé litið til skaða­minnkunar- og öryggis­sjónar­miða. 

„Til­gangur blárra ljósa á salernum er að gera æðar á yfir­borði húðar minna sýni­legar í þeim til­gangi að gera fólki erfiðara fyrir að sprauta sig með vímu­efnum. Yfir­lýstur til­gangur hefur verið sá að fæla fólk frá því að nota vímu­efni og koma enn fremur í veg fyrir að fólk sprauti sig í æð á salernum. Slíkar fælingar­að­ferðir eru taldar hafa tak­markað gildi,“ segir í fréttinni. 

Lýsingin fæli fáa frá

Reynslan sýni að lýsing virðist ekki koma í veg fyrir sprautu­notkun á salernunum heldur auki frekar hættu á skaða við at­höfnina. 

Ekki hafi verið gerðar margar rann­sóknir á árangri bláu ljósanna en árið 2010 var ein slík gerð í Bret­landi. Niður­staða rann­sóknarinnar hafi verið á þá leið að fælingar­máttur bláu ljósanna væri tak­markaður. Þá sé önnur frá 2013 sem sé í takt við þá frá 2010.

Meiri­hluti þátt­tak­enda hafði gert til­raun til að neyta vímu­efnis síns þrátt fyrir blátt ljós og hafði blátt ljós að­eins fælt lítinn hluta þátt­tak­enda frá. For­varnar­gildi lýsingarinnar sé tak­markað. 

Þá geti blá lýsing á salernum haft nei­kvæð á­hrif á fatlað fólk og fólk sem glímir við vanda­mál á borð við höfuð­verki eða sjóntruflanir sem getur átt erfiðara með að nota salernis­að­stöðu með svona lýsingu. 

Kapp lagt á skaðaminnkun

Af­leiðingarnar virðist frekar vera þær að fólk sprauti sig ó­gæti­lega, skemmi vefi og fái verri sár sem geta valdið sýkingar­hættu. Jafn­framt geti bláa lýsingin aukið líkurnar á meiri blæðingu hjá ein­stak­lingum vegna þess hve oft þau stinga til að reyna að ná inn í æð. Aukin blæðing getur síðan leitt til þess að blóð verður frekar eftir á salernum sem getur valdið öðrum not­endum salerna og ræsti­tæknum ó­þægindum og hættu. 

„Sú stað­reynd að um afar við­kvæman hóp er að ræða sem nú þegar er í aukinni hættu á heilsu­fars­legum vanda, og hefur tak­markaða sam­fé­lags­lega val­kosti gerir það að verkum að leggja ætti kapp á að tryggja skaða­minnkun og öryggi þar sem það er á valdi borgarinnar,“ segir á vef borgarinnar. 

Málið fer nú til með­ferðar hjá um­hverfis- og skipu­lags­sviði sem mun fjar­lægja bláu lýsinguna