Fimm­menningarnir sem sendu bréf á borgar­stjórn varðandi mál­efni vöggu­stofa funduðu með Degi B. Eggerts­syni, borgar­stjóra, í dag. Haldinn var stuttur blaða­manna­fundur eftir á þar sem þeir Árni H. Kristjáns­son, Fjölnir Geir Braga­son, Hrafn Jökuls­son, Tómas V. Alberts­son og Viðar Eggerts­son, sem allir eiga það sam­eigin­legt að hafa verið vistaðir á vöggu­stofum á unga aldri, lýstu því yfir að um sögu­lega stund væri að ræða.

„Hann er sögu­legur, ég get stað­fest það strax og ég finn það að hér situr borgar­stjóri sem er bara á sömu bylgju­lengd og við. Hann vill sann­leika og rétt­læti í mál sem er mjög stórt og mjög mikil­vægt og snertir marga ein­stak­linga, okkur fimm sem erum hérna í dag og ó­tal­marga aðra,“ sagði Hrafn Jökuls­son, rit­höfundur.

Hrafn lýsti fundinum sem bar­áttu fyrir þá eftir­lifandi ein­stak­linga sem vistaðir voru á vöggu­stofum og einnig þá sem eru farnir eru á braut.

„Þetta er byrjunin á langri ferð en fyrsta skrefið er mikil­vægast, við vitum það. Ég hlakka til þegar stund sann­leikans kemur. Í dag lít ég svo á að sé dagur rétt­lætisins, svo kemur dagur sann­leikans,“ sagði Hrafn og gaf Viðari Eggerts­syni, leik­stjóra og út­varps­manni, orðið.

Úr blaðaumfjöllun um vöggustofur á 20. öld.
Mynd/Aðsend

Al­gjör­lega þaggað niður

Viðar lýsti í stuttu máli þeim vendingum sem hafa átt sér stað í um­ræðunni um vöggu­stofu frá því að sál­fræðingurinn Sigur­jón Björns­son vakti fyrst at­hygli á mál­efninu árið 1967.

„Þá í fyrsta sinn í sögunni eignast börnin, og mæðurnar, máls­vara. En því miður þá gerðist það að það var al­gjör­lega þaggað niður og ekkert með það gert sem hann hafði að segja og vöggu­stofan hélt á­fram sínu róli með sömu að­ferð og sömu með­ferð á börnum í sex ár í við­bót.“

Viðar gerði út­varps­þáttinn Eins og dýr í búri árið 1993 þar sem hann fjallaði á leik­rænan hátt um vöggu­stofur og sína per­sónu­legu reynslu. Viðar segir þáttinn hafa vakið mikla at­hygli á sínum tíma og í öll hin skiptin sem hann hefur verið endur­fluttur. Það hafi þó ekki dugað til þess að koma af stað þeirri rann­sókn á mál­efninu sem þörf er á.

„Núna þegar það eru 72 ár liðin frá því að þessi vöggu­stofa var sett á lag­girnar fannst okkur tíma­bært að nú verði eitt­hvað gert. Við erum að vona að með þessum fundi með Degi og þeim orðum sem hann hefur látið falla að þá loks verði þetta mál opnað og það verði fundið út hvað raun­veru­lega var að gerast og hvernig þessi með­ferð fór með bæði mæðurnar, og í sumum til­vikum báða for­eldrana, og eins börnin sem þarna voru vistuð. Þau eiga það skilið, þau eiga heimtingu á því og þó fyrr hefði verið,“ sagði Viðar.

Fjölnir Geir Braga­son, lista­maður og húð­flúrari, bætti við í lokin að ekki megi gleyma því að á­föll sem þessi geti hæg­lega endur­ómað á milli kyn­slóða.

„Svo má ekki gleyma því að þetta berg­málar líka inn í sam­tímann af því börn þessara barna, þessara sködduðu barna, þau verða síðan fyrir skaða líka. Þetta erfist í rauninni,“ sagði Fjölnir.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, fagnar frumkvæði fimm­menninganna.
Fréttablaðið/Ernir

Borgar­stjóri heitir stuðningi

Blaða­maður ræddi við Dag B. Eggerts­son að fundi loknum. Dagur segir fundinn með fimm­menningunum hafa verið góðan og fagnar frum­kvæði þeirra.

„Það er aug­ljóst að þetta mál hvílir mjög þungt á þeim og það gildir um fleiri og ég sagði þeim það að ég hefði fullan hug á því að þetta yrði gert. Næstu skref eru þá að af­marka þá skoðun, það þarf að manna og það þarf hugsan­lega að leita ein­hvers konar heimilda, jafn­vel laga­heimilda til þess að veita að­gang að þeim gögnum sem geta verið per­sónu­greinan­leg, þetta geta verið sjúkra­skýrslur eða annað. Þetta þarf að fara yfir en megin­málið er að þetta verði þá vandað og vel gert þannig að niður­staðan njóti trausts og sé ó­yggjandi og við sem sam­fé­lag getum þá horfst í augu við það sem þarna var gert og lært af því,“ segir Dagur

Þannig það er vilji hjá borginni til að skoða þessi mál?

„Já, ég var alveg skýr í því á þessum fundi að mér finnst, þegar óskin er fram komin, borginni bera skylda til þess, enda var þessi rekstur á vegum borgarinnar.“

Hve­nær fréttirðu fyrst af þessu máli?

„Mál­efni vöggu­stofanna hafa auð­vitað verið til um­ræðu reglu­lega undan­farin ár og ein af spurningum mínum á fundinum var hvort að fimm­menningarinnar vissu hvers vegna mál­efni þeirra voru ekki tekin út sam­hliða vist­heimila nefndar­vinnunni eða öðrum svona sam­bæri­legum málum og það er ein­hver spurning sem ég bara get ekki alveg svarað. En núna þegar óskin kemur upp þá þarf auð­vitað að bregðast við og þetta er það sem mér finnst rétt að gera.“

Verður þá skipaður ein­hver hópur til að fara yfir þessi mál?

„Já, ég á von á því en út­færslan á þessu er eitt­hvað sem er eftir og ég hét því á þessum fundi að við myndum hafa á­kveðið sam­ráð um það. Ég held að það skipti máli fyrir málið sjálft og alla að þetta verði vandað og velt gert þannig það sé hægt að treysta niður­stöðunni,“ segir Dagur að lokum.