Leiga á 2. hæð á Hótel Sögu kostar Reykjavíkurborg um 3,4 milljónir, með virðisaukaskatti, frá 19. nóvember til 21. desember. Innifalið í því er leiga á húsgögnum, viðhaldi, hiti og rafmagn.
Greint var frá því fyrr í dag að kennsla hófst á hótelinu í dag fyrir 8. bekkinga skólans en mygla greindist í húsnæði skólans í síðustu viku og var í kjölfarið ákveðið að fella niður kennslu þar.
Fram kemur í svari Reykjavíkurborgar til Fréttablaðsins að um sé að ræða 1.100 fermetra húsnæði,á 2. hæð hótelsins auk sameignar við inngang á jarðhæð.
Ekki er vitað hversu lengi kennsla fer fram í húsnæðinu því enn er verið að vinna að framkvæmdaáætlun en búist er við því að það verði allavega fram að jólafríi.
Engar frekar niðurstöður um ástand húsnæðisins hafa borist Reykjavíkurborg en stjórnendur skólans fengu að vita í október á þessu ári að tilefni væri til að kanna loftgæði í einni álmu skólans. Kallað var til sérfræðinga til að gera það og voru tekin sýni úr gólfi, múr og loftræstikerfi og var samkvæmt frumniðurstöðum mygla í múrvegg.