Leiga á 2. hæð á Hótel Sögu kostar Reykja­víkur­borg um 3,4 milljónir, með virðis­auka­skatti, frá 19. nóvember til 21. desember. Inni­falið í því er leiga á hús­gögnum, við­haldi, hiti og raf­magn.

Greint var frá því fyrr í dag að kennsla hófst á hótelinu í dag fyrir 8. bekkinga skólans en mygla greindist í hús­næði skólans í síðustu viku og var í kjöl­farið á­kveðið að fella niður kennslu þar.

Fram kemur í svari Reykja­víkur­borgar til Frétta­blaðsins að um sé að ræða 1.100 fer­metra hús­næði,á 2. hæð hótelsins auk sam­eignar við inn­gang á jarð­hæð.

Ekki er vitað hversu lengi kennsla fer fram í hús­næðinu því enn er verið að vinna að fram­kvæmda­á­ætlun en búist er við því að það verði alla­vega fram að jóla­fríi.

Engar frekar niður­stöður um á­stand hús­næðisins hafa borist Reykja­víkur­borg en stjórn­endur skólans fengu að vita í októ­ber á þessu ári að til­efni væri til að kanna loft­gæði í einni álmu skólans. Kallað var til sér­fræðinga til að gera það og voru tekin sýni úr gólfi, múr og loft­ræsti­kerfi og var sam­kvæmt frum­niður­stöðum mygla í múr­vegg.