Reykjavíkurborg hyggst endurskoða notkun nagladekkja á vetrarþjónustubíla sína eftir helgi. Líkt og fram kom í Fréttablaðinu í dag er fleiri en einn bíll borgarinnar á vetrardekkjum þrátt fyrir að óheimilt sé að aka á slíkum dekkjum frá 15. apríl til 31. október og tilmæli borgarinnar um að aka ekki á slíkum dekkjum í borginni.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru tveir til þrír bílar á þeirra vegum á undanþágu sem eftirlitsbílar í sólarhringsþjónustu.

Hjalti Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlands Reykjavíkurborgar, segir að það séu engar líkur á því að fleiri bílar á vegum borgarinnar verði settir á nagladekk í vetur. Það eru einfaldlega sérstakar aðstæður sem kalli á notkun nagladekkja undir þessum tveimur til þremur bílum.

Umræða hefur skapast um málið á samskiptamiðlinum Twitter. Gísli Marteinn Baldursson, fjölmiðlamaður, og Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndu notkun nagladekkjanna.

Opinber Twitter-reikningur Reykjavíkurborgar hefur svarað þeim báðum og sagt að málið verði endurskoðað eftir helgi.

Aðspurður segir Hjalti að dekkja- og öryggismál borgarinnar séu í sífelldri skoðun. Það komi því ekki til vegna gagnrýni á netheimum: „Við erum alltaf að skoða þetta bara í ljósi aðstæðna og þróunar á dekkjum og öryggisbúnað sem við verðum að tryggja starfsfólki okkar.“ Þá séu bara þessir vetrarþjónustubílar borgarinnar sem séu á nagladekkjum, engir aðrir.

Hann segir koma til greina að taka naglana undan vetrarþjónustubílunum.

Myndi það ekki stefna starfsfólkinu í hættu?

„Við þurfum bara að sjá til með hvaða dekk eru í boði á móti. Við erum í raun alltaf að skoða þessi mál út frá öllum hliðum. Út frá náttúrulega bara öryggi, umhverfismálum og svo framvegis. Reyna að hafa þetta sem best úr garði gert.“