Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir það gleðiefni að þeir Antony Blinken, utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands komi hingað til lands í maí. Þeir munu sitja fund Norðurslóðaráðsins dagana 19. til 20. maí.
Ísland lætur þá af formennsku sinni í ráðinu og taka Rússar við keflinu. Andað hefur köldu milli Rússa og Bandaríkjanna að undanförnu, einkum vegna málefna Úkraínu og Krímsskaga.
„Fundurinn verður fyrst og fremst um norðurslóðarmálin. Það hefur verið og það er skynsamlegt að í ráðinu er einungis verið að ræða þau mál. Það segir sig hins vegar sjálft að það mun ekkert skaða að menn muni hittast, það kemur bara gott út úr því. Hvert framhaldið verður, verður auðvitað bara að koma í ljós. Það er mikil ánægja að sjá að þeir eru báðir búnir að tilkynna þátttöku sína og ég á nú von á því að hinir mæti líka. Það er stórt mál að við séum að halda þennan fund nú,“ segir Guðlaugur Þór.
Ávallt tilbúinn til að bæta samskipti
Utanríkisráðherra segir önnur mál en þau sem varða norðurslóðir séu ekki á dagskrá fundar ráðsins. Ef það sé vilji til að ræða önnur mál á sérstökum fundi þá sé það eitthvað sem verði að koma í ljós. „Við erum með opinn faðminn fyrir því að gera hvað við getum til að hjálpa til að liðka til í samskiptum þjóða.“
Guðlaugur Þór segir aðalatriðið að hann og ríkisstjórnin séu alltaf tilbúin til að liðka fyrir í samskiptum stórveldanna. „Það mun ekki stranda á okkur að hjálpa til við slíkt,“ segir hann. Staðan sé þannig núna að utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna ætli að koma til landsins og á hann einnig von á að utanríkisráðherrar annarra meðlima Norðurslóðarsáðsins geri það sömuleiðis. „Það er stórt mál fyrir Ísland að þessi fundur verði hér haldinn.“
Reykjavíkurborg boðið fram Höfða
„Það liggur fyrir að Reykjavíkurborg er tilbúin til þess að bjóða fram Höfða ef svo ber undir en auðvitað eru margir fleiri fundarstaðir sem koma til greina,“ segir hann varðandi mögulega staðsetningu fundar utanríkisráðherranna tveggja, ef af verður.
Varðandi það hvort fundargestir þurfi að dvelja á sóttvarnahóteli segir Guðlaugur Þór að þannig verði búið um hnútana svo fundarhöldin ógni ekki sóttvarnaaðgerðum. „Alla jafna er það ekki á mínu borði hvar ráðherrar gista,“ segir utanríkisráðherra um það hvort utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands muni dvelja á sama hóteli við komuna hingað.