Reykja­víkur­borg mun ekki að­hafast í máli Hildar Lillien­dahl, sem í gær var dæmd fyrir um­mæli sín í tengslum við Hlíða­málið svo­kallaða. Starfs­fólk hefur alltaf haft frelsi til að tjá skoðanir sínar á opin­berum vett­vangi, svo lengi sem það sé ekki brot á trúnaði í starfi.

Þetta segir Bjarni Brynjólfs­son, upp­lýsinga­full­trúi borgarinnar, í sam­tali við Frétta­blaðið. Hildur, sem er starfs­maður á skrif­stofu Reykja­víkur­borgar, var í Héraðs­dómi Reykja­víkur í gær gert að greiða tveimur mönnum miska­bætur, sam­tals 370 þúsund, vegna um­mæla sem hún lét falla í tengslum við Hlíða­málið svo­kallaða. Hlíða­málið sneri að rann­sókn lög­reglu á meintum kyn­ferðis­brotum mannanna tveggja árið 2016, en var að endingu látið niður falla þar sem það þótti ekki lík­legt til sak­fellingar.

Að­spurður segir Bjarni starfs­fólk borgarinnar alltaf hafa haft frelsi til að tjá sig opin­ber­lega, og segist telja þetta frelsi vera verndað af tjáningar­frelsis­á­kvæði stjórnar­skrárinnar.

Þá segir hann að starfs­fólk megi tjá sig um at­riði sem tengjast starfi þeirra svo lengi sem trúnaðar­skyldur standi því ekki í vegi. Hann tekur einnig fram að enginn starfs­maður á skrif­stofu borgar­stjórnar hafi verið á­minntur vegna um­mæla á opin­berum vett­vangi áður, en að hans sögn eru á­minningar að­eins veittar vegna fram­ferði starfs­manna í starfi.

Hildur tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hún furðaði sig á niðurstöðu dómsins. Hún þakkaði hins vegar fyrir allan stuðninginn sem konur allt um kring hafa sýnt henni í ræðu og riti að undanförnu - sérstaklega í kringum þetta tiltekna mál.