Héraðs­dómur Reykja­víkur hefur úr­skurðað að Strætó þurfi að greiða rútu­fyrir­tækinu Teiti Jónas­syni ehf. rúm­lega 205 milljónir króna með vöxtum frá árinu 2010 og máls­kostnað upp á rúmar 5 milljónir. Er það vegna brots á út­boði 15 leiða árið 2009.

Málið hefur velkst lengi um í dóms­kerfinu og árið 2017 var Strætó dæmt skaða­bóta­skylt í Hæsta­rétti. Hafði Strætó brotið lög um opin­ber inn­kaup með því að semja við Hag­vagna um aksturinn en það fyrir­tæki upp­fyllti ekki kröfur út­boðsins.

Nú var verið að takast á um upp­hæð skaða­bótanna. Teitur Jónas­son fór fram á bætur upp á tæpar 440 milljónir króna með vöxtum frá árinu 2010 til 2019, auk dráttar­vaxta frá þeim degi og máls­kostnaðar.

Strætó taldi að Teitur Jónas­son hefði ekki sannað tjón sitt. Til að mynda hefði fyrir­tækið getað hætt við kaup á vögnum. Krafa Teits Jónas­sonar var hins vegar byggð á hagnaði sem fyrir­tækið varð af vegna út­boðsins.

Sam­kvæmt mats­gerð frá árinu 2016 varð fyrir­tækið af 100 milljónum króna en sam­kvæmt annarri mats­gerð frá árinu 2018 varð það af 266 milljónum.