Paweł Adamowicz, borgarstjóri í Gdansk í Póllandi, lést af sárum sínum á spítalanum í dag. Adamowicz var stunginn á góðgerðarviðburði í gærkvöldi.

Árásarmaðurinn er 27 ára karlmaður sem hefur verið nafngreindur í pólskum miðlum sem Stefan W. Hann er sagður frá Gdansk og hefur langan sakaferil að baki sér. Honum var sleppt úr fangelsi í síðasta mánuði. Hann kennir stjórnmálaflokki sem borgarstjórinn var einu sinni hluti af um fangelsisvist sína.

Adamowicz hefur ekki verið vinsæll meðal hægrimanna vegna stuðnings hans við innflytjendur og hinsegin fólk en þó eru engar vísbendingar um að árásin hafi verið pólitísk.

Mikill fjöldi fólks gaf blóð eftir að blóðbankinn sendi út ákall eftir árásina í gær.

Sjá einnig: Ástand borgarstjórans í Gdansk enn óstöðugt

Greint er frá á vef breska ríkisútvarpsins.

Forsætisráðherra Pólland, Mateusz Morawiecki, segirí færslu á Twitter að árásin á Adamowicz sé mikill harmleikur og að hugur hans sé hjá fjölskyldu hans.