Vegagerðin vinnur nú að undirbúningi útboðs á frumdrögum Miklubrautar í stokk og er undirbúningur á lokastigi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að við undirbúning útfærslunnar hafi vaknað áhugi fyrir að skoða jarðgöng til samanburðar sem gætu þegar upp er staðið verið góður kostur, ekki síst vegna áhrifa á aðliggjandi byggð og samgöngur á framkvæmdatíma og kostnað við veitukerfi.

Frumdrögin myndu ná til beggja kosta og til samanburðar á þeim. Stokkurinn næði frá Kringlusvæðinu að svæði Landspítala við Hringbraut. Jarðgöngin yrðu lengri, eða allt að Grensásvegi og með rampa upp á Miklubraut bæði austan og vestan Kringlumýrarbrautar.

Tveir valkostir

Stokkurinn yrði aðeins með rampa upp vestan Kringlumýrarbrautar enda endar stokkurinn milli Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar. Nánar tiltekið er um að ræða hönnun á tveimur valkostum, annars vegar um 1,5 kílómetra steyptum stokki samkvæmt gildandi aðalskipulagi og hins vegar 2,5 kílómetra jarðgöngum frá Snorrabraut og austur fyrir gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar.

Báðir valkostir fela í sér tilfærslu fjögurra akreina bílaumferðar á Miklubraut þannig að þær verði undir yfirborði og undir núverandi gatnamótum. Á yfirborði yrði Borgarlína, göngu- og hjólastígar og gata til að þjóna nærlægum hverfum en ekki gegnumstreymisumferð.

Greina verður milli valkostanna með tilliti til byggingarkostnaðar, byggingarhæfis, umferðarrýmdar og þjóðhagfræðilegrar greiningar, að sögn borgarstjóra.