Park Won-soon, borgarstjóri Seúl, fannst látinn í dag nokkrum klukkustundum eftir að lýst var eftir honum.

Hátt í 600 lögregluþjónar og slökkviliðsmenn, auk leitarhunda, tóku þátt í leitinni að borgarstjóranum eftir að dóttir Won-soon tilkynnti um hvarf hans.

Að sögn lögreglu fannst lík hans nærri veitingastað staðsettum í fjalllendi norðarlega í Seúl. Leit hafði þá staðið yfir í um sjö klukkustundir.

Síðast sást farsíminn hans gefa frá sér merki nærri borgarstjórabústaðnum í Jongno-gu hverfinu.

Hinn 64 ára gamli Won-soon hafði stjórnað höfuðborg Suður-Kóreu frá árinu 2011. Var að hann af mörgum talinn líklegur til að bjóða sig fram í næstu forsetakosningunum sem fyrirhugaðar eru árið 2022. Hann starfaði áður sem mannréttindalögfræðingur.