Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að það muni ekki gerast á sinni vakt að vöggustofumálið svokallaða dagi uppi. Þetta kom fram í viðtali við borgarstjóra á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi.

Hópurinn, sem hefur barist fyrir rannsókn á rekstri vöggustofanna á Hlíðarenda og vöggustofu Thorvaldsensfélagsins, segir málið ganga hægt. Þeir fóru fyrst á fund borgarstjóra síðastliðið sumar og nú virðist vera kominn skriður á málið. Borgarstjóri ætlar að leggja fram tillögu í borgarráði í næstu viku um hvernig staðið verður að framhaldi þess.

Dagur segir að fá verði heimild frá Alþingi til að létta persónuvernd af mörgum skjölum og gögnum sem tengjast málinu til þess að rannsókn á því geti farið fram.

„Ég deili óþolinmæði margra vegna málsins en við erum sammála um að vinna málið bæði faglega og vel,“ segir Dagur. Það hafi farið um hann að heyra lýsingar á veru barnanna á þessum stofnunum og hann telji það hollt fyrir okkur sem samfélag að kryfja svona mál til mergjar.