Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri segir að endur­gerð húsa og braggans í Naut­hóls­vík sé al­var­legt dæmi um fram­kvæmd sem fór langt fram úr áætlun. Full­trúar meiri­hluta borgar­ráðs boða til­lögu á fundi ráðsins á morgun um heildar­út­tekt á öllu ferli endur­gerðar braggans. 

„Fregnir af ein­staka reikningum og verk­þáttum undan­farna daga kalla aug­ljós­lega á skýringar og undir­strika mikil­vægi þess að málið er komið í hendur innri endur­skoðunar Reykja­víkur­borgar,“ skrifar Dagur í færslu á Face­book. 

Í til­lögunni segir að enginn „angi skuli vera undan­skilinn“ og allt upp­lýst um ferli málsins frá upp­hafi til enda. Fram­kvæmdirnar við endur­gerð braggans fóru um­tals­vert fram úr upp­haf­legri kostnaðar­á­ætlun og hefur málið reynst afar um­deilt. Gert var ráð fyrir að fram­kvæmdirnar kæmu til með að kosta 158 milljónir króna en þær hafa nú kostað 415 milljónir.

Þannig hafa full­trúar minni­hlutans í borgar­stjórn farið mikinn og gagn­rýnt slíka með­ferð á al­manna­fé. RÚV greindi frá því um liðna helgi að hæsti reikningurinn við fram­kvæmdirnar hafi kostað 105 milljónir króna. Þá kostaði á­stands­skoðun frá verk­fræði­stofunni Eflu tæpar 27 milljónir og strá sem gróður­sett voru í kringum bygginguna 757 þúsund krónur.