Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, tilkynnti í dag að hún hyggist gefa kost á sér í forsetakosningum Frakklands sem haldnar verða á næsta ári.

„Í dag er ég reiðubúin,“ sagði hún í ræðu í Rúðuborg. „Ég býð mig fram til þess að bjóða börnum okkar upp á framtíð, öllum börnunum okkar.“

Hidalgo hefur verið borgarstjóri Parísar frá árinu 2014 og hefur þetta vægast verið stormasamur tími í borginni. Borgarstjóratíð hennar hefur spannað hryðjuverkaárásirnar 2015, mótmælahreyfingu gulvestunga, eldsvoðann í Notre Dame-dómkirkjunni og nú síðast Covid-faraldurinn. Borgarstjórn Parísar hefur haft umsjón með útgöngubönnum og ýmsum sóttvarnaraðferðum síðasta árið.

Hidalgo er meðlimur í franska Sósíalistaflokknum, sem var áður eitt helsta stjórnmálaafl Frakklands en hefur beðið fylgishrun á síðustu árum. Í síðustu forsetakosningum Frakklands árið 2017 hlaut frambjóðandi flokksins, Benoît Hamon, aðeins rúm sex prósent atkvæða.

Flestar skoðanakannanir benda um þessar mundir til þess að í kosningunum muni sitjandi forsetinn Emmanuel Macron keppa í annarri umferð við Marine Le Pen, leiðtoga frönsku Þjóðfylkingarinnar, líkt og í kosningunum 2017. Nokkuð er á brattann að sækja fyrir Hidalgo ef hún vill rétta hlut Sósíalista í kosningunum en hún hefur verið að mælast í fimmta sæti á eftir Macron, Le Pen, Xavier Bertrand, frambjóðanda miðhægrimanna, og Jean-Luc Mélenchon, frambjóðanda öfgavinstrimanna.

Kosið verður um frambjóðanda Sósíalista á flokksþingi þeirra næstu helgi, en Hidalgo þykir sigurstrangleg innan flokksins og nýtur meðal annars stuðnings flokksleiðtogans Oliviers Faure.