Dagur B. Eggertsson borgarstjóri haslar sér völl á bókamarkaðinum fyrir jólin með bókinni Nýja Reykjavík – umbreytingar í ungri borg, sem hann hefur verið með í smíðum undanfarin misseri.

Í bókinni fjallar Dagur um þau umskipti sem hann hefur séð á borgarlífinu á undanförnum áratugum og munu verða á komandi árum. Samhliða því að fjalla um þróun nýju Reykjavíkur rekur hann atburðarásina í borgarpólitíkinni, sem var vægast sagt litrík og er frásögnin mjög persónuleg í þeim köflum, að sögn Dags, sem verður í ítarlegu helgarviðtali í Fréttablaðinu á laugardag.

Hann segir jafnframt að í bókinni verði hulunni svipt af ýmsu sem gerðist á bak við tjöldin sem og metnaðarfullum áformum sem liggja í loftinu, en eru á fárra vitorði.