Dagur B. Eggerts­son, borgar­stjóri, efast um að nokkur innan Sjálf­stæðis­flokksins í borginni sé stjórn­tækur til að leiða borgina eins og er.

Þetta segir borgar­stjórinn í nýrri færslu á Face­book-síðu sinni þar sem hann gerir orð odd­vita Sjálf­stæðis­flokksins, Hildar Björns­dóttur, að sínu um­fjöllunar­efni en í Frétta­blaðinu í dag segir Hildur að Dagur hafi skapað menningar­stríð innan borgarinnar þar sem fólki er skipað í fylkingar eftir því hvernig þau á­kveða að lifa sínu lífi.

„Klofningurinn sem Hildur er að tala um er fyrst og fremst innan Sjálf­stæðis­flokksins í borgar­stjórn. Innan þess hóps er ein­hvers konar menningar­stríð - eins og hún orðar það. En ofur­trú á gamla tímanum og gráum lausnum lýsir því þó örugg­lega betur. Það var á­takan­legt að sjá að enginn fram­bjóðandi í ný­af­stöðnu próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins í borginni hafi haft kjark til að lýsa stuðningi við þá nýju, grænu og spennandi Reykja­vík sem er að taka á sig mynd. Meðan svo er má efast um að þverk­lofinn Sjálf­stæðis­flokkurinn sé stjórn­tækur til að leiða borgina á næstu árum,“ segir Dagur í færslunni, sem má sjá hér að neðan.

Mikið í húfi

Dagur á­réttar þar að í kosningunum sem fram undan eru í maí sé mikið í húfi til að hægt verði að tryggja að sam­göngu­sátt­mála höfuð­borgar­svæðisins verða hrundið hratt og örugg­lega í fram­kvæmd en innan sátt­málans er meðal annars fjallað um Borgar­línu, brú yfir Foss­voginn, heild­stætt stíga­kerfi og svo að setja Miklu­brautina í stokk, en að enda mun það sam­eina Hlíða­hverfið betur.

„Mér finnst sér­stakt af Hildi Björns­dóttur odd­vita Sjálf­stæðis­flokksins að halda því fram að meiri­hluta­flokkunum í Reykja­vík hafi mis­tekist að skapa sátt um fram­tíðar sam­göngur og skipu­lag í borginni. Meiri­hluta­flokkarnir í borgar­stjórn eru sannar­lega sam­stíga í þessum efnum en líka ná­granna­sveitar­fé­lögin sem öllum er stjórnað af Sjálf­stæðis­flokknum og ríkis­stjórnin sem á bæði heiður og aðild að sam­göngu­sátt­mála höfuð­borgar­svæðisins,“ segir Dagur.