Borgarráð samþykkti í dag að setja á stofn nefnd óháðra sérfræðinga um að gera heildstæða athugun á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins sem reknar voru af Reykjavíkurborg á síðustu öld. Tillaga þess efnis var loks lögð fyrir Borgarráð í morgun 246 dögum eftir að fimmmenningarnir gengu á fund Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og fóru fram á rannsókn í júlí 2021.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir tillöguna hafa farið greiðlega í gegnum ráðið og var sameiginleg bókun lögð fram sem hún lýsir sem sögulegum viðburði.
„Við vorum að samþykkja það að stofna þessa nefnd og það vantar lagaákvæði til að allar heimildir séu klárar til þess að nefndin geti farið af stað,“ segir Þórdís í samtali við Fréttablaðið.
Rannsóknin verður unnin í samráði við forsætisráðuneyti sem mun útvega nauðsynlegar lagaheimildir fyrir vinnu nefndarinnar. Áður var haft eftir Þorsteini Gunnarssyni, borgarritara, að mikill vilji væri hjá bæði ríki og borg að vinna málið og hratt og vel og hægt er.
Lokaðir fundir og þagnarskylda
Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að markmið rannsóknarinnar og meginverkefni nefndarinnar verða í fimm liðum.
- Að lýsa starfsemi vöggustofanna, hlutverki þeirra í barnaverndar- og/eða uppeldismálum og tildrögum þess að börn voru vistuð þar á því tímabili sem um ræðir.
- Að leitast við að staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á stofnuninni hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi meðan á dvölinni stóð.
- Að lýsa því hvernig eftirliti Reykjavíkurborgar og ríkisins með vöggustofunum var háttað.
- Að lýsa öðrum atriðum sem tengjast starfsemi vöggustofanna og nefndin telur þarfnast skoðunar.
- Nefndin skal skila skýrslu um störf sín til borgarráðs.
- Leggja grundvöll að tillögum til borgarráðs um frekari viðbrögð ef ástæða þykir til.
Nefndin mun geta ráðið til sín starfsmann í samstarfi við Innri endurskoðanda og ráðgjöf. Hún skal þó vera sjálfstæð og óháð í störfum sínum og verður henni heimilt að kalla eftir aðstoð og upplýsingum frá aðilum innan og utan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar við einstaka þætti athugunarinnar.
Fundir nefndarinnar verða lokaðir og nefndarmenn og starfsmaður hennar verða bundnir þagnarskyldu um hvaðeina er varðar einkalíf þeirra einstaklinga sem þeir fá upplýsingar um í rannsókninni. Gert er ráð fyrir því að borgarráð skipi fulltrúa í nefndina fljótlega.

Ljótar lýsingar á aðbúnaði barna
Í júlí 2021 gengu Árni H. Kristjánsson, Fjölnir Geir Bragason, Hrafn Jökulsson, Tómas V. Albertsson og Viðar Eggertsson, á fund borgarstjóra en þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa verið vistaðir á vöggustofum á unga aldri.
Borið hefur á mikilli gagnrýni á starfsemi vöggustofanna í meira en hálfa öld. Ljótar lýsingar hafa reglulega skotið upp kollinum í fjölmiðlum á aðbúnaði barna sem þar dvöldu, bæði frá börnunum sjálfum, starfsmönnum og aðstandendum þeirra, en enn hefur þó engin opinber rannsókn farið fram.
Þorbjörg Guðrún Sigurðardóttir fyrrum forstöðukona Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins lýsti því til að mynda í fréttaskýringu Hringbrautar að sér hafi blöskrað það sem við henni blasti á vöggustofunni enda hafi það verið hreint út sagt hræðilegt.
„Þetta var þannig að við máttum ekki hugga börnin ef þau grétu. Við áttum að gefa þeim pela á fjögurra klukkustunda fresti og skipta á þeim, en ekki að skipta okkur af þeim annars. Síðan var okkur uppálagt að baða börnin en það mátti aðeins taka fimm mínútur. Það var allt á þennan veg. Börnin áttu mjög bágt, þau voru hrædd við snertingu og mjög inn í sér,“ sagði Þorbjörg í samtali við Elínu Hirst.
Fréttin hefur verið uppfærð.