Fram kemur í umsögn stofnunarinnar að sífellt hafi verið gengið á fjörur höfuðborgarinnar og að tillagan sé í alla staði neikvæð fyrir lífríki og auðugt fuglalíf. „Forsendur fyrir þéttingu byggðar, og þeirri hagkvæmni sem því getur fylgt, eiga ekki að byggjast á því að raska lífríkustu svæðum Reykjavíkur,“ segir í umsögninni. Lítið er gefið fyrir að landfyllingin sé minni en á fyrri áætlun og að hún verði aðlöguð ströndinni. Þá sé ekki hægt að tala um sjálfbæra byggð eða skipulag ef farið sé í landfyllingu. „Náttúra Skerjafjarðar, ef svo má að orði komast, á ekki að gjalda fyrir að ástæða þyki til þess að skipuleggja byggð við fjörðinn eða á flugvallarsvæðinu.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Umhverfis- og heilbrigðisráði leggja til að strandlengjan verði friðlýst í samráði við ráðherra málaflokksins. Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé með miklum ólíkindum ef meirihlutinn kjósi að hunsa mat stofnunarinnar og halda þéttingaráformum til streitu. „Það er í yfirlýstri stefnu meirihlutans að hlúa eigi að grænum svæðum og vernda eigi líffræðilegan fjölbreytileika. Í því ljósi tel ég rétt að grípa í taumana og láta skoða að friðlýsa svæðið.“