„Ef Vin væri ekki starf­rækt hér á Hverfis­götunni í þeirri mynd sem nú er, færi ég voða lítið út úr húsi,“ segir Kári Auðar Svans­son, 43 ára Reyk­víkingur með geð­klofa.

Ör­lög Vinjar eru nú í höndum meiri­hluta borgar­ráðs sem leitar leiða til að bregðast við rekstrar­halla. Orð borgar­full­trúa um að til standi að færa þjónustuna til en ekki loka henni eru mark­laust hjal að sögn þeirra not­enda þjónustunnar sem Frétta­blaðið hefur rætt við. Tug­ir ein­stak­linga með geð­raskanir hittast dag­­lega í Vin.

Um ræðir við­kvæman og jaðar­settan hóp í sam­fé­laginu og er ekki á hverjum degi sem fjöl­miðlar fá inn­sýn í líf not­enda. Kári hefur sótt Vin heim síðast­liðin sjö ár. Hann mætir alltaf fyrir há­degi, spjallar við fólkið og snæðir heima­til­búinn mat sem hann hrósar mjög.

„Svo erum við geð­klofa­hópur sem hittist á föstu­dögum. Ræðum í trúnaði það sem við viljum tala um, hvernig vikan var og svona. Þetta er ein­stakur staður og það heyrir alveg til undan­tekninga að upp komi deilur.“

Kári hefur sótt aðra staði fyrir fólk með geð­raskanir. Hann segist ekki hafa fundið sig þar og upp­lifir sig heppinn að hafa fundið Vin.

„Ég veit bara ekki hvað ég myndi gera ef þessi staður yrði lagður niður. Margt fólk myndi missa allt sitt fé­lags­líf og ég er í þeim hópi.“

Kári er fljótur til svars þegar hann er spurður um hverjar af­leiðingarnar yrðu ef þessi hópur þyrfti að flytja sig til eða sundrast.

„Inn­lögnum á geð­deild myndi snar­fjölga,“ svarar hann. Fimm­tíu milljóna króna á­ætlaður sparnaður borgarinnar yrði á einu auga­bragði fyrir bí. „Kallast það ekki að spara aurinn en henda krónunni?“

Kári greindist með geð­klofa 22 ára gamall. Miklar rang­hug­myndir hreiðruðu um sig og er Kári eitt svæsnasta geð­klofa­til­felli sem sögur fara af hér á landi að hans sögn. Skýringar á geð­klofanum eru að líkindum genetískar.

„Þessi sjúk­dómur veldur mikilli fötlun, ég er nánast ó­vinnu­fær og hef marg­oft byrjað í há­skólanum, hef prófað fullt af fögum. En ég hrökklast alltaf burt, þoli ekki á­lagið.“

Enn líður ekki vika án þess að Kári upp­lifi ofsa­kvíða eða geð­rof. Lík­legt er að staða hans verði alltaf við­kvæm þótt lyfin geri sitt gagn. Fé­lags­leg örvun er honum því afar mikil­væg.

„Ef það á að spara í rekstri borgarinnar, væri þá ekki nær­tækara að lækka laun borgar­full­trúa frekar en að leggja niður að­stöðu fyrir fólk með geð­raskanir?“ spyr Kári.