„Ef Vin væri ekki starfrækt hér á Hverfisgötunni í þeirri mynd sem nú er, færi ég voða lítið út úr húsi,“ segir Kári Auðar Svansson, 43 ára Reykvíkingur með geðklofa.
Örlög Vinjar eru nú í höndum meirihluta borgarráðs sem leitar leiða til að bregðast við rekstrarhalla. Orð borgarfulltrúa um að til standi að færa þjónustuna til en ekki loka henni eru marklaust hjal að sögn þeirra notenda þjónustunnar sem Fréttablaðið hefur rætt við. Tugir einstaklinga með geðraskanir hittast daglega í Vin.
Um ræðir viðkvæman og jaðarsettan hóp í samfélaginu og er ekki á hverjum degi sem fjölmiðlar fá innsýn í líf notenda. Kári hefur sótt Vin heim síðastliðin sjö ár. Hann mætir alltaf fyrir hádegi, spjallar við fólkið og snæðir heimatilbúinn mat sem hann hrósar mjög.
„Svo erum við geðklofahópur sem hittist á föstudögum. Ræðum í trúnaði það sem við viljum tala um, hvernig vikan var og svona. Þetta er einstakur staður og það heyrir alveg til undantekninga að upp komi deilur.“
Kári hefur sótt aðra staði fyrir fólk með geðraskanir. Hann segist ekki hafa fundið sig þar og upplifir sig heppinn að hafa fundið Vin.
„Ég veit bara ekki hvað ég myndi gera ef þessi staður yrði lagður niður. Margt fólk myndi missa allt sitt félagslíf og ég er í þeim hópi.“
Kári er fljótur til svars þegar hann er spurður um hverjar afleiðingarnar yrðu ef þessi hópur þyrfti að flytja sig til eða sundrast.
„Innlögnum á geðdeild myndi snarfjölga,“ svarar hann. Fimmtíu milljóna króna áætlaður sparnaður borgarinnar yrði á einu augabragði fyrir bí. „Kallast það ekki að spara aurinn en henda krónunni?“
Kári greindist með geðklofa 22 ára gamall. Miklar ranghugmyndir hreiðruðu um sig og er Kári eitt svæsnasta geðklofatilfelli sem sögur fara af hér á landi að hans sögn. Skýringar á geðklofanum eru að líkindum genetískar.
„Þessi sjúkdómur veldur mikilli fötlun, ég er nánast óvinnufær og hef margoft byrjað í háskólanum, hef prófað fullt af fögum. En ég hrökklast alltaf burt, þoli ekki álagið.“
Enn líður ekki vika án þess að Kári upplifi ofsakvíða eða geðrof. Líklegt er að staða hans verði alltaf viðkvæm þótt lyfin geri sitt gagn. Félagsleg örvun er honum því afar mikilvæg.
„Ef það á að spara í rekstri borgarinnar, væri þá ekki nærtækara að lækka laun borgarfulltrúa frekar en að leggja niður aðstöðu fyrir fólk með geðraskanir?“ spyr Kári.