Varaborgarfulltrúar Samfylkingarinnar, þær Ragna Sigurðardóttir og Ellen Jacqueline Calmon, hafa beðist tímabundinnar lausnar frá störfum sínum vegna álags. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.

Hafa báðar skilað inn beiðni til borgarstjórnar um tímabundna lausn frá störfum með vísan til 30. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Telur Ragna sig ekki geta gegnt skyldum í borgarstjórn án óhæfilegs álags vegna náms og Ellen vegna annarrar vinnu.

Ragna og Ellen skipuðu 9. og 10. sæti á lista Samfylkingarinnar í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna sem fram fóru í maí í fyrra. Ragna og Ellen tóku sæti í borgarstjórn þegar Guðrún Ögmundsdóttir og Kristín Soffía Jónsdóttir stigu tímabundið til hliðar. Guðrún fór í veikindaleyfi en Kristín Soffía á von á barni.

Þeirra í stað munu Aron Leví Beck og Dóra Magnúsdóttir taka sæti þeirra í borgarstjórn.