Endurskoðun reglna um hagsmunaskráningu borgarfulltrúa var rædd á borgarstjórnarfundi í gær. Lagðar eru til töluverðar breytingar á núgildandi reglum en þeim er ætlað að auka gagnsæi í störfum borgarstjórnar. Breytingarnar verða að öllum líkindum samþykktar á næstu vikum.

Breytingar í átt að gagnsæi

Breytingarnar byggja að mestu á gildandi reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings sem samþykktar voru í forsætisnefnd Alþingis í janúar á þessu ári. Öll atriðin verða því samræmd núgildandi lögum um hagsmunaskráningu þingmanna fyrir utan eitt nýtt ákvæði. Það snýr að skráningu á eignum fyrirtækja sem borgarfulltrúi á hlut í, til dæmis á öðrum fyrirtækjum, fasteignum og fleiru.

„Með þessu er ekki hægt að fela eignarhald með því að setja það bara undir eitthvað fyrirtæki,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, sem fór fyrir vinnunni við endurskoðunina, í samtali við Fréttablaðið. „Önnur breyting sem er nokkuð stór snýr að því að auka gagnsæi í kringum lánardrottna í tengslum við lán sem þú hefur tekið þegar þú ert til dæmis að fjármagna kaup á fyrirtæki.“

Núgildandi reglur um hagsmunaskráningu hafa verið í gildi síðan 29. október 2009 en í þeim kemur fram að þær verði yfirfarnar og endurskoðaðar að minnsta kosti árlega. Forsætisnefnd vann að endurskoðun reglnanna og lagði fram umrædd drög fyrir borgarstjórn í gær sem vísaði þeim til borgarráðs.

Hægt sé að fela eignarhald

Hún segir þá að breytingarnar gætu haft áhrif á einhverja borgarfulltrúa í ljósi nýlegrar fjölmiðlaumfjöllunar. „Það hefur til dæmis verið fjallað um að einn borgarfulltrúi hafi fengið lán fyrir fyrirtækjakaupum og svo hefur verið fjallað um eignarhald einstakra borgarfulltrúa á til dæmis fjölmiðlafyrirtæki sem er undir öðru fyrirtæki og það er þá falið í núverandi hagsmunaskrá,“ segir Dóra og má ætla að hún eigi þar við umfjöllun Stundarinnar um viðskipti eignarhaldsfélagsins Ramses II. sem er í eigu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Eyþórs Laxdals Arnalds.

Félag Eyþórs á nú um 23% hlut í Morgunblaðinu.

Stundin greindi þannig frá því í síðasta mánuði að félag Eyþórs hefði keypt hlutabréf í Morgunblaðinu með 325 milljóna króna kúluláni. Seljandi bréfanna var eignarhaldsfélag í eigu Samherja en í ársreikningi þess kom fram að félagið hafi veitt kaupanda bréfanna seljendalán upp á 225 milljónir. Þá keypti félagið einnig hluti Síldarvinnslunnar og Vísis í Grindavík og á nú um 23% hlut í Morgunblaðinu.

„Þetta eru dæmi um hagsmuni sem væri vissulega ástæða til að gefa upp í hagsmunaskráningu,“ segir Dóra. „Það er mjög sérstakt að vera stór eigandi að fjölmiðli og vera í pólitík sjálfur.“

Vangaveltur um hagsmunatengsl

„Það sem ég minntist hins vegar á á fundinum í gær var að við vorum að fara að kjósa í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og þar var einn borgarfulltrúi sem að bauð sig fram til þeirra starfa. Í sameignarsamningi Orkuveitunnar kemur fram að gæta þurfi þess að þú hafir sem ekki neinna hagsmuna að gæta sem stjórnarmanneskja og ég var með vangaveltur um að þessi borgarfulltrúi, sem var Eyþór Arnalds, ætti eða væri tengdur öðrum orkufyrirtækjum,“ heldur Dóra áfram.

Dálítið uppnám varð í umræðunum í gær þegar Eyþór svaraði þessum vangaveltum Dóru en Fréttablaðið greindi frá því í morgun. Eyþór sagði spurningarnar til skammar og að verið væri að draga einstaklinga inn í gróusögur í stað þess að tala um það sem væri á dagskrá. „Hef ég gert það? [tengst orkufyrirtækjum] Já. Geri ég það núna? Nei,“ sagði Eyþór í gær.

Dóra segir þá að með breytingum hagsmunaskráningarinnar þurfi ekki lengur að velta upp spurningum á borð við þessa. „Í nýju skránni væri mun skýrara hvort að aðilinn væri tengdur fyrirtækjunum vegna þess að ekki væri hægt að fela eignarhaldið undir öðrum fyrirtækjum.

Meirihlutinn óundirbúinn

Eyþór gagnrýndi þá störf meirihlutans í Facebook-færslu sem hann birti í gær. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa lagt það til að hagsmunaskráning yrði aukin fyrir tíu mánuðum síðan. Þá hefðu allir borgarfulltrúar flokksins verið tilbúnir til að samþykkja nýju reglurnar í gær en þá hafi ekki verið gefið færi á atkvæðagreiðslu.

Fyrir tíu mánuðum síðan lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til í borgarráði að hagsmunaskráning væri aukin....

Posted by Eyþór Laxdal Arnalds on Tuesday, June 18, 2019

Bíða mats Persónuverndar

Breytingarnar verða endanlega staðfestar í borgarráði á næstu vikum en ekki fyrr en niðurstaða Persónuverndar um málið liggur fyrir. Dóra segist ekki búast við því að Persónuvernd geri athugasemdir við drög nýju reglnanna fyrst að þau eru byggð á núgildandi reglum á Alþingi.

„En það er þessi stóra breyting á, sem snýr að því að gefa líka upp þau fyrirtæki sem fyrirtækin þín eiga, sem gæti verið vafaatriði. En í ljósi þess að flestar þessar upplýsingar eru opinberar en í raun faldar á stöðum sem eru óaðgengilegir almenningi finnst mér ólíklegt að mat Persónuverndar verði neikvætt,“ segir Dóra að lokum.