Borgar­full­trúar hvorki hafa né geta nýtt sér að­gang Reykja­víkur­borgar að Vinnu­stofu Kjarvals. Þetta segja borgar­full­trúar meiri­hlutans við Frétta­blaðið sem leitaði við­bragða við fréttum um að Reykja­víkur­borg greiddi Vinnu­stofu Kjarvals 1,6 milljónir í ár fyrir ellefu að­gangs­kort að að­stöðunni.

Odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í borginni Ey­þór Arnalds furðar sig á samningnum í sam­tali við Frétta­blaðið og sagðist fyrst hafa heyrt af honum í gegnum fréttir í morgun. Hann er sjálfur nokkuð tíður gestur á Vinnu­stofu Kjarvals en segist að­spurður ekki vera með að­gang í gegnum borgina. Hann segist hafa talið að að­eins ein­staklingar og fyrir­tæki greiddu fyrir að­gangs­kort að staðnum, ekki sveitar­fé­lög.

Þór­dís Lóa Þór­halls­dóttir, odd­viti Við­reisnar í Reykja­vík, og Kristín Soffía Jóns­dóttir, borgar­full­trúi Sam­fylkingarinnar, segjast þá hvorug hafa farið inn á Vinnu­stofu Kjarvals með að­gang borgarinnar, enda sé hann ekki fyrir borgar­full­trúa. Að­gangurinn er þannig fyrst og fremst fyrir stjórn­endur sem eru að halda fundi, starfs­daga eða fyrir starfs­manna­sam­töl.

Kristín vildi þá ekki tjá sig um samninginn og sagðist treysta borgar­ritara til að finna sem hag­kvæmastar leiðir til að leigja fundar­rými fyrir starfs­menn borgarinnar. „Ég veit ekki betur en að þetta hafi gengið vel og sé sparnaður þar sem þó nokkuð var um leigu á rými vegna vinnu­funda og fleira,“ sagði Þór­dís Lóa þá.

Samkomu- og fundarstaður

Vinnu­stofa Kjarvals er skil­greind sem vinnu- og sam­komu­rými en einnig bar og er til húsa á efstu hæð sam­liggjandi húsa númer 10 og 12 við Austur­stræti. Þar er fundar­að­staða, veitingaaðstaða og bar og er rýmið opið til eitt um helgar. Oft eru þar haldin teiti og sam­komur.

Greint var frá því í Markaðinum í morgun að Reykja­víkur­borg hefði gert samning við Vinnu­stofuna um að fá ellefu að­gangs­kort að rýminu í ár, eitt fyrir hvert svið og hverja skrif­stofu sem á­kvað að taka þátt. Hvert að­gangs­kort kostar 120 þúsund krónur auk virðis­auka­skatts og veitir að­gang að vinnu­stofunni auk veitinga­að­stöðu og bars alla daga vikunnar.